Síðasti heili dagurinn! Nú er uppskeruhátíð og því er vel fagnað hér í Ölveri.
Vakna, borða, fánahylla, taka til. Á morgunstund ræddi forstöðukona um það hversu dýrmætur dagur þetta er, því nú höfum við allar vanist staðnum, kynnst hvorri annari og fengið að læra hvað það er sem okkur finnst best við að vera í Ölveri. Við flettum við í Nýja testamentinu og lásum saman falleg orð um kærleikann. Við báðum saman og hver og ein stúlka hlustaði inn í sitt hjarta hverju hún vildi beina athygli sinni að í dag og hvað hún vildi gefa af sér til að gera daginn ógleymanlegan. Svo gekk englastytta á milli og þær sem vildu deildu sínum ásetningi upphátt og aðrar í hljóði. Það var virkilega gaman að heyra frá stelpunum og þær staðráðnar í að gera sitt til að skapa góðar stundir. Síðasti brennóleikurinn var spilaður og í hádegismat var boðið upp á pastasalat, sem þeim fannst frábært.
Þær voru hvattar til að nýta frístundirnar síðasta daginn til að vera úti að leika og þær dreiðfust um svæðið og um allt hús, því þær eru farnar að kynnast svo mikið á milli herbergja og deila sínum leikjum hver með annari. Næst á dagsskrá var loksins komið að því að mála skúlptúrana sem þær bjuggu til fyrir 2 dögum og það var alveg magnað að sjá hálfunnin verk verða fullunnin. Svo fengu stelpurnar líka að búa til brjóstsykur! Bragðgott, litríkt og skemmtilegt. Í kaffitímanum voru Ölvers-bollur og súkkulaðibitakökur. Á eftir kaffi var komið að því að undirbúa sig fyrir veislukvöldið, sem er hátíðarstund í síðasta kvöldinu. Allar fóru í heita pottinn eða bara sturtu, til að vera hreinar og fínar í sparifötunum. Foringjarnir buðu upp á hárgreiðslu og fastar fléttur og var gaman að sjá einkennisgreiðslu sumarbúðanna breiðast yfir hópinn. Á sama tíma var boðið upp á karíókí í salnum, þ.a. hópurinn safnaðist saman í stemningu og hvörru hvora aðra til dáða og fönguðu ákaft. Það var gengið hátíðlega í matsalinn sem hafði verið skreyttur og uppröðun breytt í meira eins og veitingahús frekar en mötuneyti, dúkar og kerti á borðum. Stelpurnar þurftu hver og ein að finna sinn disk, merktan með nafninu sínu á litlu pappírshjarta, sem aftan á var vers úr Nýja testamentinu. Það er gaman að blanda hópnum svona síðasta kvöldið og þá fá þær tækifæri til að kynnast fleiri stelpum betur. Hátíðarkvöldverður var með einstaklega glæsilegu sniði, því þegar stelpurnar voru að borða eins og þær lysti af pítsu margarítu, eða með skinku eða pepperoni, þá fluttu mæðgur (móðir og 2 dætur), sem eru partur af starfsteyminu, stórkostlega Ölvers-útgáfu af Eurovision laginu Fairytale á 3 fiðlur og söng. Svo var hverju herbergi fyrir sig boðið að standa frá borði og stíga út í tröppur í myndatöku með sínum bænakonum. Þegar þær komu inn aftur leiddi kórstjórinn sem æfði með þeim lag fyrr í vikunni keðjusöng, með yndislegu lagi „Love, love“ og stelpurnar sungu svo undurfagurt að við starfsstúlkurnar táruðumst því þetta snart svo djúpt. Í desert var boðið upp á rice crispies köku.
Á veislukvölds-kvöldvöku sýna foringjarnir nokkur af albestu leikritum sem Ölver hefur að geyma, allir í búning, allir á útopnu og fíflagangurinn í hámarki, og veltust stelpurnar úr hlátri, milli þess sem þær sungu kröftuglega lögin sem þær hafa lært í vikunni. Skyndilega breyttist kvöldvakan í danspartí, þar sem spiluð voru lög sem flestar stelpurnar þekktu dansa við og foringjarnir leiddu með sínum einstaka glæsibrag. Svo flutti foringi ljúfa hugleiðingu um miskunnsama samverjan, sem minnir okkur á að sama hver við erum, í hvaða stétt eða frá hvaða svæði, þá höfum við alltaf val um að breyta rétt og rétta samferðarfólki okkar á þessari Jörðu hjálparhönd. Að lokum sungum við kvöldsönginn okkar sem styður við ró og kyrrð inn í svefninn. Þær sem voru svangar gátu fengið sér epli og appelsínur í matsalnum og svo undirbúa sig fyrir háttinn. Á síðasta bænakvöldinu fá stelpurnar tækifæri til að lesa versið af hjartamiðanum sínum með sinni bænakonu, og sumum finnst gott að leyfa boðskapnum að fylgja sér áfram. Síðasta kvöldið getur líka verið dýrmæt stund í þeirri frábæru vináttu sem hefur skapast eða dýpkað yfir dvölina.
Þessi dagur var sannarlega uppskeruhátíð, því það er engu líkt að fylgjast með stelpunum í essinu sínu, hver og ein svo ánægð og sátt í sér eins og hún er, og leyfir sér að skína ljósi sínu til annara og baða sig í ljósi annara. Fegurðin í fjölbreytninni, það á sko sannarlega við hér í Ölveri!
Kyrrðarkveðjur frá fjallsrótum og birkiskógi,
Áróra