Lokadagurinn runninn upp, ótrúlegt en satt!
Það örlaði á þreytu hjá sumum stúlkunum þegar vakið var í morgun, enda er full fjör-vinna að vera í Ölveri 🙂
En þær voru þó snöggar að safnast saman í morgunverðarhlaðborðið. Syngja, borða og fánahylling og svo var komið að því að pakka niður. Með dyggri aðstoð aðstoðarforingjanna fundu stelpurnar til föggur sínar og listmuni. Þegar allar töskur voru komnar út á stétt og tilbúnar fyrir rútuna var komið að Biblíulestri. Við áttum saman notalega stund, báðum saman og forstöðukona rifjaði upp allt það sem við höfum gert hér í fjörbreyttri dagsskrá og gleðiríku hefðunum hér í Ölveri. Hún minnti stelpurnar á að við eigum alltaf skjól í trúnni og kærleikanum, og bað þær um að hlusta inn á við og finna hvað það væri sem þær vildu taka með sér heim og tendra líf sitt og annara með innblæstri eftir veruna hér. Englastyttan gekk hringinn og þær tjáðu hátt og snjallt eða í hljóði þakklæti sitt og ásetning fyrir komandi tíma. Ýmislegt var nefnt og sem dæmi ætluðu þær að taka með sér öryggið sem þær finna í Ölveri, traust til lífsins, þakklæti, kærleikann, gleði og vináttu. Sumar ætluðu líka alveg örugglega að taka allt dótið sitt með sér! Eftir nokkra kröftuga söngva var komið að loka brennóstundinni – því nú var foringjabrennó. Þá keppir sigurlið vikunnar við foringjana. Foringjarnir voru kynntir til leiks í hátalarakerfinu, í númeruðum treyjum og andlitsmálningu. Hvílík fagnaðarlæti þegar kempurnar hlupu inn á völlinn! Sigurlið stúlknanna byrjaði leikinn betur og…. unnu foringjana nokkuð örugglega. Glæsileg frammistaða sem einkenndist af góðri liðsheild og sigurvilja! Þá var boðið í næsta leik þar sem allar stelpurnar kepptu á móti foringjunum. Leikurinn var stórskemmtilegur og í þetta skiptið mörðu foringjarnir sigur. Þegar við komum til baka upp í hús var boðið upp á hádegismat á stéttinni fyrir utan, grillaðar pulsur. Þær runnu ljúflega niður og veðrið lék við okkur með léttskýjuðu og mildi, en við höfum verið alveg ótrúlega heppnar með veður allan flokkinn og úrhellisrigningunni sem hafði verið spáð seinkaði og seinkaði og fyrstu droparnir féllu ekki fyrr en akkúrat þegar stelpurnar stigu upp í rútu!
Eftir matinn fengu stelpurnar brjóstsykurinn sem þær bjuggu til í gær og svo söfnuðumst við saman á sal í lokastund. Vinsælustu lögin voru sungin í síðasta skiptið, sigurlið í Brennókeppni og Hegðunarkeppni voru tilkynnt og krýnd og óskilamunir sýndir. Ef eitthvað skilar sér ekki heim þá er farið með alla óskilamuni í húsnæði KFUM & KFUK, Holtavegi. Þá var sýnt myndband af bakaranum vaða út í heitapottinn, þar sem tappinn hafði gleymst í botninum í gær, en annar foringi og hennar besta vinkona ætlaði að grínast í henni og ýta henni ofan í, en þar sem hún veitti mikla mótspyrnu endaði með að hin stökk líka ofan í og enduðu þær báður rennblautar ofan í ísköldu vatninu! Það eru engin takmörk á leikgleðinni og sprellinu í foringjunum! Að lokum var Ölverslag sumarsins 2023 sungið með góðum viðtökum hjá stelpunum og svo fór hvert herbergi saman inn á sitt bænó með sinni bænakonu til að kveðjast og fá Ölvers hefti með persónulegri kveðju frá bænakonum.
Þá var bara að skella sér upp í rútu og leggja af stað. Þegar þessi orð eru rituð syngja allar stelpurnar hátt og snjallt Ölver í faðmi fjalla og ég get ekki annað en brosað út að eyrum.
Við starfsstúlkurnar þökkum kærlega fyrir samfygldina og vonum að Ölvers-andinn megi fylgja stúlkunum heim og smitist jafnvel til ykkar sem hafa fylgst með okkur heiman frá. Gleði, kærleikur og vinátta – lífið er ævintýr og það er langbest að lifa það saman með góðu fólki og hvíla í kyrrðinni í eigin hjarta.
Með þökk og góðum kveðjum,
Áróra