Í gærmorgun mættu til okkar 34 eldhressir krakkar tilbúin í ævintýri vikunnar. Við byrjuðum daginn á því að fá okkur morgunmat saman. Eftir það tók morgunstund. Morgunstundin okkar var með Sunnudagaskólaívafi. Við fórum með minnisvers, gerðum upphitun, sungum Daginn í dag og önnur sígild lög. Við heyrðum líka söguna af því þegar Jesú læknaði lamaða manninn. En vinsælasti dagskrárliðurinn var leikrit sem starfsmenn stigu á stökk sem ýmsar skemmtilegar sögupersónur.

Þó svo að yfir helmingur barnanna hafi komið áður fannst okkur tilvalið að fara með þau í kynningarferð um svæðið. Þau kynntust tröllskessunni Dísu sem liggur ofan við Ölver. Þau fengu meira að segja skilaboð frá henni Dísu. Dísa sagði að krakkarnir sem væru á leikjanámskeiðinu væru allir ótrúlega skemmtilegir. Við vorum öll sammála Dísu. Annar viðkomustaður á ferðinni var leikskálinn okkar eða glæsilegasta og jafnframt eina brennóhöll landsins. Þar fór fram æsispennandi skotboltaleikur þar sem allir tóku mikið og vel þátt. En áfram hélt gangan sem endaði svo á fótboltavellinum í alls kyns hópeflisleikjum.

Í hádegismatnum var boðið upp á hakk, spaghetti, hvítlauksbrauð og grænmeti sem þau borðuðu með bestu lyst. Svæðið umhverfis Ölver er tilvalið í frjálsan leik og til að skoða sig um. Við buðum þess vegna upp á frjálsan leik og stöðvar. Í matsalnum var boðið upp á að leira, í lautinni voru leikir og skotbolti, í Biblíusalnum var boðið upp á danspartý og niðri á fótboltavelli var fótbolti. Þar sem veðrið var svo gott voru flestir úti allan tímann. Við borðuðum kaffimatinn úti á stétt til þess að drekka í okkur síðustu sólargeisla sumarsins. Þá var nánast komið að heimferð þann daginn en þó ekki áður en við gátum verið með smá kveðjustund. Þar sungum við og trölluðum en horfðum líka á myndband frá Hafdísi og Klemma, við góðar undirtektir.

En nokkur praktísk atriði. Við vildum minna á að börnin eiga ekki að vera með síma með sér. Ef einhverra hluta vegna verða þau að hafa hann er best að hann sé afhentur við komu og við geymum hann á meðan á dvölinni stendur. Þau fá þá símann sinn í hendurnar í rútunni við heimferð. Annað. Við höfum fengið fyrirspurnir um söluvarning. Hægt er að kaupa í Ölveri. Þá annaðhvort með því að senda barnið með pening eða millifæra á bolasjóð Ölvers og afhent er uppfrá:

kt. 540580-0149
rnr. 552-14-11000

Verðskrá
Stuttermabolur: 3000 kr
Langermabolur: 3500 kr
Húfa: 2000 kr
Brúsi: 3000 kr
Handklæði: 1500 kr
Þrennutilboð (stuttermabolur, húfa, brúsi): 6500 kr

Hér birtast myndir úr vikunni.

Ölverskveðjur,

Kristrún Guðmunds, forstöðukona