Krakkarnir komu syngjandi kát og glöð beint inn í morgunverðarveislu og svo upp á morgunstund. Morgunstundinni var hagað eins og daginn áður. Saga dagsins var Jesú stillir storminn. Nokkrir galvaskir krakkar komu og léku hlutverk sögunnar.

Okkur fannst við þurfa að kynna krökkunum fyrir einni elstu Ölvershefðinni: Brennó! Við brunuðum því beinustu leið út í brennó þar sem æsispennandi leikur átti sér stað. Einhverjir voru þó ekki eins spenntir fyrir hasarnum svo við buðum einnig upp á perlur og vinabönd.

Í hádegismat voru pu/ylsur sem var gott bensín fyrir gönguferðina sem var eftir matinn. Við komumst þó ekki lang áður en við hittum stórfurðulegan íþróttaálf sem kynnti sig sem Íþróttakálfinn. Hann var með upphitun sem fólst í mörgum undarlegum og afbrigðilegum leikfimiæfingum. Þetta kom aldeilis orkunni í gang hjá krökkunum og hlupu þau af stað í gönguna, þó mishratt. En uppákomunum var ekki lokið. Eftir smá spöl sáum við eitthvað skrýtið tré. Þetta var dansandi jólatré. Jólatrénu fannst að ekki væri seinna vænna en að byrja að hita upp fyrir jólin. Það lét því krakkana dansa í kringum sig og syngja ýmis jólalög.

Í kaffimat var boðið upp á rice krispies og bananabrauð áður en við fórum á lokastund og kvöddum fyrir þann daginn.

Ölverskveðjur

Kristrún Guðmunds, forstöðukona