Gærdagurinn var heldur betur skemmtilegur hjá okkur. Stúlkurnar vöknuðu við tónlist og voru ekki lengi að hoppa á fætur og fá sér morgunmat. Síðan sungu þær fánasönginn við fánahyllingu og höfðu tiltekt í herbergjunum sínum fyrir hegðunar- og hreinlætis keppnina. Á biblíulestri ræddum við um náttúruna, Guð sem höfund hennar ef hún væri bók og okkar hlutverk í þeirri bók. Stúlkurnar tóku virkan þátt og sungu mikið. Brenniboltamótið átti sér stað úti í sólinni og fengu þær svo hakk og spagettí í hádegismat. Við byrjuðum leynivinkonuleik og sköpunar geta þeirra kom fljótt í ljós. Þær fengu banana brauð og skúffuköku í kaffi og fóru svo í heita pottinn og völdu sér síðan skotbolta eða vinabandagerð úti með foringjum. Í kvöldmat var grjónagrautur, síðan var mikið fjör á kvöldvökunni sem endaði úti í sykurpúðagrilli og gítarsöng. Eftir bænaherbergi sat yndislegi foringjahópurinn okkar frammi á gangi og sungu stúlkurnar í svefn.