Í fyrradag mættum við kátar upp í Ölver um hádegi. Stúlkunum var skipt í herbergi og fengu þær tíma til að kynnast á meðan verið var að koma sér fyrir. Margar skreyttu herbergin strax á fyrsta degi og fer voða vel um okkur hérna. Við fórum í könnunarleiðangur um svæðið og enduðum gönguna í nafnaleikjum og slíku í góða veðrinu. Í hádegismat var skyr og pizzabrauð. Síðan héldum við Ölvers tískusýningu þar sem herbergin hönnuðu búning úr ýmsu skemmtilegu, til dæmis úr plastpoka, hárneti, vinaböndum og fleiru. Hugmyndaflugið fór á fleygiferð og komu þær okkur öllum á óvart. Í kvöldmat voru kjötbollur, kartöflumús og heimalöguð sósa. Kvöldvakan eftir matinn var skemmtileg og sá eitt herbergi um skemmtiatriðin þar sem þær voru með leikrit og leik. Bænakonuleit tók síðan við í skóginum hér á svæðinu þar sem foringjar voru í búningum, til dæmis mátti sjá jólatré, tómat og engil. Þegar hvert herbergi var búið að finna bænakonurna sína, var boðið upp á ávexti í kvöldkaffi áður en farið var að hátta. Fyrsti dagurinn gekk mjög vel, enda frábær hópur af stúlkum.