Gærdagurinn gekk rosa vel fyrir sig og var mikið líf á svæðinu. Eftir morgunmat og fánahyllingu lögðu stúlkurnar sig vel fram við tiltekt í herbergjum fyrir hegðunar- og hreinlætiskeppnina. Biblíulestrinurinn var skemmtilegur og fara þær núorðið létt með að fletta upp í nýja testamentinu. Við lærðum um náungan og lögðum áherslu á mikilvægi þess að hugsa vel um og til náunga okkar. Foringjarnir léku lítið leikrit um miskunnsama samverjann með nútíma vinkli. Í hádegismat voru burritos sem ekki var óvinsælt. Næst vorum við með brjóstsykursgerð í matsalnum og dansstöð í kvöldvökusalnum. Í kaffitímanum var boðið upp á skyrköku, kanilsnúð með súkkulaðiglassúr og smákökur. Síðan undum við okkur í að föndra vegabréf til þess að komast inn í ævintýraheiminn, en þar voru álfar, gangandi jólatré, spákona, sjóræningi og norn. Hér var orkan í hámarki og mikill spenningur. Þær fengu ávaxtasúrmjólk í kvöldmat og svo tók kvöldvakan við. Skemmtiatriðin voru aftur í boði stúlknanna og var undirbúningurinn mikill. Síðan héldum við bíókvöld uppi í sal. Þær komu sér vel fyrir með sængur, kodda og popp. Þeim fannst afar gott að fá kósýkvöld eftir atburðaríkan dag.