Það var líflegur hópur sem kom í Ölver í blíðskaparveðri í dag. Mikil spenna og eftirvænting ríkir og margar sem eru þegar heimavanar. Stúlkunum var skipt í herbergi og fengu þær tíma til að kynnast á meðan verið var að koma sér fyrir.

Í hádegismat var pizzabrauð og skyr. Eftir hádegisverð buðu foringjar hópnum í gönguferð um svæðið til að kynnast helstu kennileitum og endaði hópurinn í nafnaleikjum á fótboltavellinum. Þótt hlýtt hafi verið í veðri var væta á grasinu og birkilaufunum og stúlkurnar því margar votar eftir rannsóknarleiðangra í skóginum.

Í kaffinu var boðið upp á kryddbrauð og jógúrtköku og að því loknu voru haldnir Ölversleikar þar sem herbergin kepptu í hinum ýmsu heimatilbúnu íþróttagreinum á borð við glasakasti, sippi og fleiru.

Í kvöldmat var steiktur fiskur og ofnbakaðar kartöflur.

Hér eru haldnar feykiskemmtilegar kvöldvökur á hverju kvöldi og sjá stúlkurnar um skemmtiatriðin. Í kvöld var boðið upp á frumsamið leikverk sem einnig var morðgáta og leik. Það var mikið hlegið og mikið fjör.

Því næst tók við bænakonuleit þar sem foringjar földu sig og stúlkurnar áttu að leita að sinni bænakonu. Foringjarnir höfðu klætt sig upp í skemmtilega búninga og tóku dansandi á móti stúlkunum.

Þá var komið að því að fá ávexti í kvöldkaffi eftir langan og annasaman dag. Þá fylgdu bænakonur stúlkunum inn á herbergi, lásu, sungu og hjálpuðu stúlkunum að komast í ró fyrir svefninn. Þessi fyrsti dagur gekk mjög vel enda einstaklega ljúfar stúlkur sem við erum heppnar að fá að kynnast.