Sólin gægðist á okkur í dag og vermdi okkur með geislum sínum. Það var kærkomið eftir vætusama daga undanfarið. Þess vegna var ákveðið að ganga niður að læk í dag og stúlkunum boðið að stinga tánum ofan í svalandi lækinn. Sumar ákváðu að taka skella sér alveg ofan í lækinn á meðan öðrum nægði að sitja á bakkanum og horfa á.
Eftir kaffi var svo boðið uppá heita pottinn og brjóstsykursgerð.
Að lokinni kvöldvöku var æsispennandi ævintýraleikur þar sem stúlkurnar þurftu að hlaupa um allan skóg að hitta Harry Potter og leysa þrautir og komast hjá vitsugum og hinum óhugnanlega Voldemort. Leikurinn var heldur betur fjörugur og skemmtilegur.
Það voru þreyttar stelpur sem lögðust á koddann um miðnætti eftir langan og viðburðaríkan dag.