Upp er runninn veisludagur, síðasti heili dagurinn okkar í Ölveri. Stúlkurnar fengu að sofu örlítið lengur en fóru svo beint í morgunmat, morgunstund og brennó.

Í hádegismat var kalt pastasalat.

Eftir hádegi var haldin hæfileikakeppni þar sem stúlkurnar sýndu listir sínar í söng, leik, dansi, bröndurum og fleiru. Það var unun að sjá hvað þær eru hæfileikaríkar og hugrakkar.

Í kaffinu var bananabrauð og eplakaka.

Eftir kaffi buðu herbergin öðrum að kíkja í heimsókn og þiggja þjónustu sem íbúar herbergisins voru búnir að undirbúa. Í einu herbergi var draugahús, í öðru var boðið upp á portrettteiknun, í því þriðja var hárgreiðsla og svo mætti lengi telja. Þarna fékk sköpunargleðin enn á ný að skína.

Í kvöldmat var pizza.

Á kvöldvökunni sáu foringjar um atriði og voru þar unnir ýmsir leiksigrar.

Það er erfitt að trúa því að flokkurinn sé að líða undir lok því okkur finnst við svo nýbúnar að fá stelpurnar til okkar, samt finnst okkur við hafa kynnst þeim svo vel.