Í Ölver er mættur frábær hópur af sprækum stelpum og eðal starfslið auk mín.

Strax frá upphafi var jákvæður andi og spenningur yfir hópnum og voru þær fljótar að blanda geði við hvora aðra og kynnast. Margar þeirra eru miklir Ölvers reynsluboltar eins og oft þegar kemur að unglingaflokki en eins eru hér nokkrar sem eru að fá að upplifa dýrðina sem Ölver hefur upp á að bjóða í fyrsta sinn. Hópurinn hefur þó blandast vel og allar teknar með í fjörið, nýjar sem gamlar.

Þegar komið var upp í Ölver var byrjað á því að kynna stelpurnar fyrir staðnum, húsakynnum og útisvæði, starfsfólki, helstu reglum o.fl. Skipt var í herbergi og pössuðum við að sjálfsögðu upp á það að vinkonur fengju að vera saman í herbergi. Stúlkurnar komu sér fyrir og síðan var boðið upp á skyr og pizzabrauð í hádegismat.

Eftir hádegismat var farið í gönguferð um svæðið auk þess að brugðið var á leik með ýmsum nafna- og samhristingsleikjum til að kynnast.

Í kaffitíma var svo boðið upp á bananabrauð og skúffuköku sem vakti mikla lukku!

Eftir kaffitíma var slegið til keppni milli herbergja til að hrista herbergin saman. Keppnin sem um ræðir voru svokallaðir Ölversleikar en í þeirri keppni keppa stelpurnar í hinum ýmsu furðuþrautum. Þar reyndi mikið á samvinnu, hreyfingu, hugvit, frjóa hugsun og svo mætti lengi telja. Samvinnan var þvílík, hvergi bar á ósætti og við vorum sammála um hvað þær voru allar áberandi jákvæðar og hvetjandi gagnvart hvorri annarri í gegnum alla keppnina. Þær gerðu í því að lyfta hvorri annarri upp, hvetja og hrósa sem skilaði sér í því að þær nutu sín allar sem ein í gegnum alla keppnina. Að auki áttu liðin að koma sér saman um eins konar „liðsbúning“ einungis úr því sem þær höfðu sjálfar meðferðist auk litaðra vesta sem til eru hér í Ölveri. Það stóð ekki á þeim og ótrúlega gaman að sjá hverju þær fundu upp á á stuttum tíma með lítinn efnivið! Endilega kíkið á myndasíðuna okkar til að sjá myndir af þessari snilld! Neðst í fréttinni er hlekkur á myndasíðuna.

Eftir Ölvers leikana gafst tími fyrir frjálsan tíma auk þess að stelpurnar úr Fjallaveri fengu tíma til að undirbúa atriði fyrir kvöldvöku en hér í Ölveri skipta herbergin með sér kvöldunum þar sem þær sjá um að skemmta hinum stelpunum með leikritum og leikjum á kvöldvöku.

Í kvöldmat var boðið upp á pítu. Í framhaldi af kvöldmat var haldið á kvöldvöku. Eins og áður sagði var það Fjallaver sem sá um skemmtiatriði en í lokin á kvöldvökum fá stelpurnar að heyra stutta hugleiðingu fyrir svefninn.

Í Ölveri ríkir sú hefð að hvert herbergi fær sína bænakonu, þ.e. sinn foringja sem fer inn í herbergi til þeirra öll kvöld, fer í leiki, spjallar við þær, segir skemmtilegar sögur, syngur og hjálpar þeim að koma sér í ró. Þegar stelpunum var hleypt niður í kvöldkaffi af kvöldvöku var þó allt starfsfólkið meira og minna horfið… Þegar þeim var litið inn í herbergin sín hékk þar sokkur í loftinu og meðfylgjandi þau skilaboð til að komast að því hver þeirra bænakona væri þyrftu þær að finna þá sem klæddist hinum sokknum sem passaði við þann sokk sem hékk í þeirra herbergi.. Svo það var jú lítið annað í því að gera en að fara að leita. Stelpurnar fóru því á flakk út í skóg og jú, bænakonurnar fundust ein af annarri, faldar á víð og dreif um svæðið í líki hinna ýmissu furðuvera og fylgdu þær að lokum sínum stelpum aftur inn í hús og inn í þeirra herbergi til að eiga notalega stund fyrir svefninn.

Mikil spenna var í hópnum og eftir skemmtilegan dag voru það sáttar og sælar stúlkur sem lögðust á koddann. Stúlkurnar voru ótrúlega duglegar að fara að sofa og var komin ró í húsið í kringum miðnætti. Það er ótrúlega góður andi í hópnum og ég get ekki beðið eftir að kynnast þeim betur og sigla inn í fleiri ævintýri með þeim út vikuna.

Unnur Rún, forstöðukona.

Hér er hægt að sjá myndir frá gærdeginum.

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720318611630/with/53843726162