Stelpurnar voru vaktar með tónlist kl. 9 fyrsta morguninn og höfðu þær flest allar sofið vel og næturvaktin gengið áfallalaust fyrir sig. Lúsmýið gerði þó nokkuð vart við sig í góða veðrinu í gærkvöldi og því einhverjar eitthvað bitnar. Þær hafa þó lítiðkvartað í gegnum daginn og ekki látið þetta á sig fá.

Í morgunmat var boðið upp á morgunkorn, súrmjólk og hafragraut. Eftir morgunmat var farið út í fánahyllingu og svo farið í hefðbundna morgundagskrá en morgnarnir í Ölveri eru yfirleitt alltaf eins. Eftir fánahyllingu hefst tiltekt og frágangur í herbergjum en í gegnum vikuna fer fram svokölluð hegðunarkeppni þar sem horft er til almennrar hegðunar, kurteisi við hvora aðra og starfsfólk, hvernig gengur að koma ró á á kvöldin (bara róin ekki hvernig gengur að sofna) og svo hvort þær haldi herbergjunum snyrtilegum. Á hverjum morgni gefst tími til að taka til áður en starfsmaður fer hringinn og lítur inn í öll herbergin. Klukkan 10:30 er svo morgunstund sem við köllum biblíulestur og að henni lokinni er haldið í brennó fram að hádegi. Á biblíulestri þennan morguninn ræddum við um hvað Ölver getur gefið okkur, hvers við getum fengið að njóta hér, hvað við getum lært og hvað við getum tekið með okkur heim. Ég hvatti stelpurnar til að velta þessu fyrir sér í gegnum vikuna. Eins rifjuðum við upp gullnu regluna því að mínu mati er það vísa sem er aldrei of oft kveðin og mikilvægt að minna sig á hana reglulega út í gegnum lífið.

Í hádegismat var boðið upp á steiktan fisk, kartöflur og salat og borðuðu þær flestar mjög vel. Eftir hádegismat var svo farið göngu. Þegar heim var komið beið þeirra kaffitími og í þetta sinn var boðið upp á skinkuhorn og jógúrtköku. Þegar boðið var upp á annan umgang var ekki að spurja að því og stukku þær allar til við að fá sér meira.

Eftir kaffi var boðið upp á aðeins rólegri dagskrá. Stelpunum var boðið að fara í heita pottinn og fóru herbergin saman. Hér í Ölveri er nýbúið að setja upp nýjan pott sem er töluvert stærri en sá gamli og okkur finnst við búa við þvílíkan lúxus og nutu stelpurnar vel. Þær sem ekki höfðu áhuga á pottinum fengu líka færi á að fara í sturtu. Samhliða pottadagskrá var boðið upp á alls kyns dund, s.s. perlur, liti, spil, vinabandagerð o.s.frv. auk þess gafst stelpunum tími fyrir frjálsan leik, spjall inni á herbergi og annað sem þeim datt í hug. Þær voru ótrúlega duglegar að finna sér eitthvað að gera auk þess að skemmtileg stemmning myndaðist inni á herbergjum þar sem stelpur úr mismunandi herberjum blönduðust í spjall og þær lögðu sig fram við að kynnast hinum enn betur. Einhverjar nutu einnig útiveru en veðrið lék ekki alveg eins vel við okkur og í gær, þó þar hafi að mestu haldist þurrt og ágætlega hlýtt.

Í kvöldmat var boðið upp á grjónagraut og smurt brauð. Eftir kvöldmat var boðið upp á að horfa á Frakkland-Spánn í undanúrslitum á EM fram að kvöldvöku en svo virðist sem hópurinn sé þó vægast sagt ekki uppfullur af fótboltaáhugakonum þar sem lítið var um áhorf. Stelpurnar virtust hafa meiri áhuga á að njóta tímans saman í spjall og alls kyns leik sem ég verð að segja að mér finnst frábært mál!

Því næst var haldið á kvöldvöku og voru það stelpurnar í Lindarveri sem brugðu á leik og skemmtu hinum. Hugleiðing kvöldsins fjallaði svo um það að byggja líf sitt á traustum grunni. Þegar kvöldvakan var um það bil að líða undir lok mætti Dumbledore á svæðið. Hann þóttist fara að útskýra ævintýraleik sem margar þeirra kannast við og byrjaði því að myndast smá æsingur í hópnum. Því næst bættist við Lísa í Undralandi sem tilheyrir einmitt annarri útgáfu af sama leik hér í Ölveri. Svo virtist sem það hefði orðið einhver misskilningur svo Lísa var send burtu aftur. Því næst ruddist inn Katniss Everdeen sem jú, tilheyrir enn annarri útgáfu af sama leik. Svo virtist sem starfsfólkið væri komið í algjört rugl með plön en í raun var þetta viljandi gert þar sem reynsluboltarnir í hópnum eru farnar að þekkja öll trixin í bókinni og því vildum við rugla aðeins í þeim. Í staðinn fyrir að hér væri verið að rúlla af stað ævintýraleik með þemað í rugli ruddist inn enn annar karakterinn og startaði náttfatapartýi og stóðu sumar stelpurnar eftir sem eitt spurningamerki. Í náttfatapartýinu var mikið sungið og dansað og mikið stuð. Í lokin léku foringjar leikrit sem endaði með því að þær útdeildu ís og var stelpunum sögð saga yfir ísnum til að koma aftur ró á hópinn. Eftir allt fjörið fóru bænakonurnar svo inn á herbergin með sínum stelpum fóru í leiki og spjölluðu að koma þeim almennilega í ró. Stelpurnar voru aðeins lengur að komast í ró en fyrsta kvöldið enda spennustigið rifið hátt upp í náttfatapartýinu og því töluverður galsi í þeim eins og við er að búast. Meira á morgun.

Ég minni svo aftur á myndirnar frá deginum en þær má finna hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720318611630/with/53843726162

Bestu kveðjur,

Unnur Rún, forstöðukona.