Stelpurnar voru vaktar með tónlist kl. 9. Þær sváfu flestar vel og næturvaktin gekk vel. Lúsmýið hélt áfram að angra okkur annað kvöldið og eru margar því töluvert bitnar, því miður. Þær hafa þó ótrúlega lítið kvartað og virðast ekki láta þetta skemma fyrir sér.

Morguninn gekk sinn vanagang með morgunmat, fánahyllingu, tiltekt og biblíulestri. Á biblíulestri ræddum við um hvað við erum allar frábærar á okkar hátt og að Guð elskar okkur allar eins og við erum. Við ræddum um mismunandi styrkleika og það hvað við búum allar yfir mismunandi kostum og góðum eiginleikum. Í framhaldi unnu þær lítið verkefni þar sem þær útbjuggu allar litla stjörnu þar sem þær merktu inn á nokkra styrkleika sem þær búa yfir. Ég hvatti þær til að horfa inna á við og út fyrir hinn týpíska ramma sem við eigum til að festast í þegar kemur að umræðu um hæfileika og styrkleika. Það var ótrúlega gaman að renna yfir þetta hjá þeim í lokin og sjá hvað þessar flottu stelpur búa yfir ótrúlega fjölbreyttum styrkleikum. Við skelltum svo stjörnunum upp á vegg svo þær gætu allar skoðað þetta og spáð og spekúlerað. Það er komin mynd á netið svo endilega kíkið á þetta þar.

Eftir morgunstund var haldið í brennó eins og vanalega og þaðan í hádegismat. Í hádegismat var boðið upp á grænmetisbuff, couscous og salat. Eftir hádegismat var svo slegið í aðra keppni. Keppnin sem um ræðir köllum við Top Model en í þeirri keppni fá herbergin það verkefni að útfæra búning/“look“ á einhverja úr herberginu. Vanalega fá þær ákveðinn efnivið og smá ramma utan um það sem þær eiga að gera en það hefur skinið skýrt í gegn í þessum hópi að hér er um að ræða ótrúlega hugmyndaríkar og skapandi stelpur og því ákváðum við að gefa þeim alveg frjálsar hendur hvað sköpun varðar auk þess að þær höfðu val um að hafa eitt eða fleiri módel úr hópnum. Samvinnan var þvílík og hvergi bar á ósætti, allar spenntar og saman í liði við að vinna að meistaraverkinu. Útkoman var svo sýnd á tískusýningu við mikil fagnaðarlæti þar sem foringjarnir brugðu sér í gerfi og mættu á staðinn sem kynnar og dómarar. Það var ótrúlega gaman að sjá hvað hvert herbergi útfærði verkefnið á ólíkan hátt! Þvílíkt hugmyndaflug! Ég hvet ykkur til að kíkja á myndasíðuna okkar til að sjá þessi meistaraverk sem stelpurnar göldruðu fram.

Eftir Top Model var komið að kaffitíma en þennan daginn var boðið upp á Ölversbollur og sjónvarpsköku.

Í lok kaffitímans var tilkynnt að næst tæki við brjóstsykursgerð og brutust þá út mikil fagnaðarlæti! Þær komu inn í matsal í litlum hópum í brjóstsykursgerð og fengu svo að fara í heita pottinn og sturtu í framhaldi. Rólegt og notalegt eftirmiðdegi og virtust þær hafa mjög gaman af.

Í kvöldmat var boðið upp á tortillas. Stelpurnar hafa almennt borðað mjög vel í flokknum og gefa sér tíma til að sitja við, fá sér meira og njóta matarins.

Eftir kvöldmat gafst tími fyrir smá frjálsan tíma áður en haldið var á kvöldvöku. Á kvöldvökunni var það Hamraver sem skemmti lýðnum. Þær buðu upp á ótrúlega skemmtilega leiki sem eru nýjir á nálinni hér í Ölveri og vöktu þeir mikla lukku! Í lok kvöldvöku var ljóst að eitthvað dularfult væri í gangi. Komið var að því að halda í ferðalag inn í undraheim. Þeim var öllum smalað niður í matsal þar sem inngangurinn í ævintýraheiminn var. Herbergin fóru af stað í leiðangur eitt af öðru með bundið fyrir augun inn á svokallaðan ævintýragang. Í þetta skipti var hann í drungalegri kanntinum þar sem stelpurnar eru orðnar þetta stórar. Á leið þeirra í gegnum undraheiminn hittu þær fyrir draug, litla stúlku, trúð, lúsmý, dúkku og norn. Út braust mikill tryllingur, spenningur og æsingur en stelpurnar skemmtu sér mjög vel í gegnum ferðalagið þrátt fyrir að bregða smá og hjartslátturinn hafi rokið upp. Ferðalagið endaði uppi í kvöldvökusal þar sem búið var að setja í gang léttan skemmtiþátt til að ná ró aftur eftir viðburðaríkt og stressandi ferðalag.

Í framhaldi var svo komið að því að fara að sofa. Bænakonurnar fylgdu þeim inn og gekk í raun ótrúlega vel að ná þeim í ró þrátt fyrir mikið stuð og hátt spennustig stuttu áður enda klukkan orðin margt og langur dagur að baki.

Þetta eru ótrúlega flottar stelpur sem þið eigið! Andinn í hópnum er alveg einstaklega góður, allt gengur smurt og jákvæðninni er haldið hátt á lofti!

Ég minni svo aftur á myndirnar frá deginum en þær má finna hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720318611630/with/53843726162

Bestu kveðjur,

Unnur Rún, forstöðukona.