Stelpurnar voru vaktar með tónlist og stuði kl. 9:30. Morguninn gekk svo eins og vanalega sinn vanagang. Þemað á morgunstund var þakklæti og enduðum við allar á að skrifa miða með einhverju sem við erum þakklátar fyrir og fylltum þakkarkörfu.

Í hádegismat var boðið upp á hakk, spagetti og hvítlauksbrauð. Eftir hádegi var svo slegið til hæfileikakeppni og VÁ! Þessar stelpur ykkar búa yfir svo miklum og fjölbreyttum hæfileikum! Við fengum að sjá leikþátt, myndlist, hljóðfæraleik (m.a.s. blindandi), myndlist, grín af foringjum, söngatriði o.s.frv. Eins og vaninn er hér í Ölveri brugðu foringjar sér í hin ýmsu gerfi og slógu í gegn sem kynnir og dómarar á þessari flottu keppni.

Í kaffitíma var boðið upp á norska teköku og kryddbrauð. Eftir kaffi var svo aftur boðið upp á pott, sturtur, armbandagerð, spjall og chill. Stelpurnar eru farnar að kynnast mjög vel og finnst mjög gaman að fá líka frjálsan tíma til að chilla saman.

Í kvöldmat var svo boðið upp á grillaða hamborgara. Ráðskonan okkar frábæra skellti sér út í rokið og rigninguna og grillaði ofan í hópinn þrátt fyrir veðrið.

Á kvöldvöku voru það Skógarvers stelpurnar sem buðu upp á skemmtiatriði. Þær sömdu leikrit þar sem flogið var með Ölv-air og þær blönduðu inn gríni tengt foringjunum. Ég þreytist ekki á að segja það en þetta eru svo brilliant stelpur sem þið eigið.

Eftir mikla stuðdagskrá síðustu kvöld var ákveðið að hafa kvöldið aðeins í rólegri kantinum. Eftir kvöldvöku var boðið upp á risaútgáfu af Varúlf. Í þeim leik detta þær út ein af annarri og þegar þær fóru að týnast út var boðið upp á bíókvöld uppi í sal og spjall í Fuglaveri sem er herbergi sem stendur autt þessa vikuna. Þeim fannst það mjög spennandi og nutu sín vel og ég held ég geti sagt að við höfum slegið met yfir það hvað við komum mörgum stelpum inn í eitt herbergi.

Góður dagur að kvöldi kominn en veðrið heldur áfram að versna og versna því miður. Okkar bíður gul viðvörun en við förum nú ekki að láta það á okkur fá! Ég held þó að möguleikinn á að gista úti undir berum himni sé fokinn út í buskann og verði að fá að bíða þar til á næsta ári, því miður.

Veisludagur bíður, meira um það síðar 😀

Bestu kveðjur,

Unnur Rún, forstöðukona.