Í Ölver eru mættar 28 skemmtilegar stelpur. Þegar komið var upp í Ölver var byrjað á að kynna stelpunum fyrir staðnum og starfsfólki. Skipt var í herbergi þannig að allar fengu að vera með vinkonum sínum. Stelpurnar komu sér fyrir í herbergjunum. Andinn er góður í hópnum og stelpurnar fljótar að blanda geði.

Í Ölver er borðað fimm sinnum á dag. Í hádeigismat var skyr og pizzabrauð sem stelpurnar borðuðu vel af. Eftir hádeigismat var gengið um útisvæðið, farið í hópleiki og brennó var kennt úti á íþróttavelli sem var mikil stemming.

Í kaffinu var boðið upp á bananabrauð og múffur sem slógu rækilega í gegn.

Við vorum heppnar með veður þannig eftir kaffitíma var baðað sig í sólinni. Stúlkurnar perluðu og gerðu vina-armbönd á stéttinni og fóru í pottinn. Það var mjög huggulegt og allar stelpurnar nutu sín í botn.

Hefð er fyrir því að herbergin sjái um skemmtiatriði á kvöldvöku. Stelpurnar í Skógarveri æfðu leikrit og leik til að hafa á kvöldvöku.

Í kvöldmat var píta. Síðan var kvöldvaka þar sem var sungið og skemmtiatriði Skógarvers sýnt sem sló í gegn og mikið hlegið. Í lok kvöldvöku var hugleiðing.

Eftir kvöldvöku var bænakonuleit. En í Ölver eru bænakonur foringjar sem koma inn í herbergin á kvöldin til að spjalla um daginn, fara í leiki og hjálpa svo stelpunum að fara í ró. Bænakonurnar földu sig úti og fóru stelpurnar í hverju herbergi saman að leita af þeim. Eftir að þær fundust fengu þær sér kvöldkaffi og fóru svo í ró. Stelpurnar fengu að kynnast bænakonum sínum sem var notaleg og dýrmæt stund. Þær voru flestar fljótar að sofna eftir skemmtilegan dag.

Stelpurnar voru alsælar með daginn og spenntar fyrir næstu dögum.

Hægt er að sjá myndir úr flokknum inni á flickr: https://flic.kr/s/aHBqjBzPUr

 

Kveðja forstöðukonur flokksins,

Salóme og Andrea Rut