Þriðjudagurinn 16. júlí

Dagurinn hófst á vakningu með skemmtilegri tónlist sem ómaði um Ölver. Í morgunmat var boðið upp á þetta hefðbundna, cheerios, kornflex, hafragraut og framvegis. Fánahylling var næst á dagskrá og beint eftir hana fóru stelpurnar inn á herbergin sín, bjuggu um rúm og gerðu allt fín og flott fyrir hegðunarkeppnina sem stendur yfir allan flokkinn. Morgunstundin var á sínum stað í salnum þar sem skemmtileg Ölverslög voru sungin og sagan um Ölver og Kristrúnu stofnanda var sögð. Stelpurnar hlustuðu af miklum áhuga og spurðu skemmtilegra spurninga. Brennó var úti á velli og hádegismatur þar á eftir þar sem kjötbollur og kartöflumús var borið á borð. Stelpurnar borðuðu af bestu lyst.

Eftir hádegi var farið í göngu að læknum sem rennur rétt fyrir utan svæðið. Margar selpur fóru út í og busluðu. Aðrar óðu í læknum og nutu náttúrunnar og tónlistarinnar sem var spiluð. Þær fundu sér fallega steina sem síðan voru málaðir eftir kaffitíma. Í kaffinu var boðið upp á Ölversbollur og súkkulaðiköku með smjörkremi. Við settum af stað leynivinaleik þar sem stelpurnar drógu aðra í flokknum. Allar hönnuðu pósthólf sem þær hengdu á hurð herbergisins þar sem leynivinurinn laumast með litlar gjafir, eins og vinabönd og falleg skilaboð. Eftir kaffið var boðið upp á að fara í pottinn sem flestar stelpurnar nýttu sér. Þeim finnst ansi gott að fá að slaka á í æðislega nýja pottinum okkar.

Í kvöldmat var boðið upp á grjónagraut og brauð með allskyns áleggi. Síðan var kvöldvaka þar sem stelpurnar í Hamraveri sýndu skemmtiatriði sem þær höfðu æft fyrr um daginn. Eftir kvöldvöku var stelpunum sagt að gera sig klárar fyrir háttinn en þegar þær voru flestar komnar undir sæng heyrðist partýtónlist frammi á gangi og óvænt náttfatapartý hófst. Mikil stemning og gleði réði ríkjum uppi í kvöldvökusal. Allar fengu ís og nutu nokkurra skemmtiatriða frá foringjum. Það var nokkuð ljóst að mikil orka fór í daginn og ekki síst náttfatapartýið þar sem flestar voru orðnar mjög þreyttar þegar þær loksins fóru upp í rúm að sofa.

Frábær dagur er liðinn og við hlökkum til þeirra næstu!

Kveðja frá forstöðukonum,

Andrea Rut og Salóme