Miðvikudagur, 17. júlí 2024
Það var vakið klukkan níu með tónlist. Stelpurnar fóru svo í klassískan Ölvers morgunmat. Beint eftir það fóru þær í fánahyllingu og tóku svo til í herbergjunum sínum. Næst var morgunstund þar sem var sungið, hlustað á sögu og kennt stelpunum að fletta í nýjatestamenntinu. Að lokinni morgunstund var farið í daglega brennó úti á íþróttavelli sem vakti mikla lukku.
Í hádeigismat var grænmetisbuff og kúskús með Ölvershætti. Vel var borðað af því. Eftir hádeigismat var herbergjunum skipt í fjórar stöðvar. Á einni stöð sömdu stúlkurnar dans til að sýna flokknum seinna í vikunni. Annari stöð var sungið þar sem stelpurnar sungu saman keðjusöng og skemmtileg óskalög. Á þriðju stöðinni fengu stelpurnar leir og gerðu fallega leirmuni sem þær fá að mála næsta dag. Á fjórðu stöðinni fengu stelpurnar að gera kókoskúlur sem þær fengu að borða í kaffinu. Stelpurnar tóku allar virkan þátt og fannst þetta stór skemmtilegar stöðvar.
Í kaffinu var boðið upp á einstöku kókoskúlurnar sem stelpurnar gerðu ásamt Ölvers fléttubrauði og súkkulaðibita smákökur. Það voru tvær afmælisstelpur sem fengu köku með kertum og kórónu meðan allur flokkurinn söng afmælissönginn fyrir þær.
Eftir kaffi var farið í Top model þar sem hvert herbergi velur sér módel sem stelpurnar hjálpast að við að skreyta úr efnum sem foringjarnir afhenta þeim. Samvinnan gekk stórkostlega. Fengnir voru gesta dómarar til að dæma runway og afrakstur þeirra. Stelpurnar sýndu þvílíkar listir í sköpunum þeirra og nutu sín í botn.
Í kvöldmat var boðið upp á taco. Svo var haldin kvöldvaka þar sem Hlíðaver sýndi skemmtiatriði sem þær höfðu æft fyrr um daginn. Skemmtiatriðið heppnaðist mjög vel og það var mikið hlegið. Eftir kvöldvöku var svo spa night þar sem var hugguleg tónlist og kerti meðan stelpurnar fengu maska og gúrku fyrir augun. Boðið var upp á kakó og sumar stelpurnar fengu fastafléttur.
Eftir huggulegt kvöld fóru stelpurnar upp í rúm og bænakonurnar komu inn til þeirra.
Stelpurnar eru órtrúlega skemmtilegar og búin að mynda góð vinabönd. Þær voru hæst ánægðar með daginn og spenntar fyrir næstu dögum.
Hægt er að sjá myndir úr flokknum í gegnum þennan link: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720318827413/
Bestu kveðjur frá forstöðukonum flokksins,
Salóme og Andrea Rut