Föstudagur 19. júlí, 2024
Í dag var veisludagur en það er seinasti heili dagurinn í flokknum. Dagurinn byrjaði eins og venjulega með morgunmat, fánahyllingu og morgunstund. Brennó tók svo við. Í hádegismat var pastasalat með grænmeti og sósu. Eftur hádegismat var ýmislegt skemmtilegt á dagskrá. Stelpurnar máluðu leirinn sem þær mótuðu fyrr í flokknum. Einnig gerðu þær brjóstsykra með allskyns bragðtegundum, bubble gum var sú vinsælasta. Einnig undu þær úr tie dye bolunum sínum sem komu ótrúlega vel út, allir alveg einstakir.
Í kaffi var boðið upp á lummur með sýrópi og kanilsnúða. Bakkelsið var borðað af bestu lyst. Eftir kaffitímann var komið að því að gera sig tilbúnar fyrir veislukvöldið sem var framundan. Allar fóru í pottinn eða sturtu og fengu fléttur í hárið ef vilji var fyrir því. Stelpurnar voru ótrúlega fínar og sætar og það var mikill spenningur fyrir kvöldinu.
Að góðri venju var boðið upp á pizzur í veislumatnum. Stelpurnar gátu valið um margarítu, pepperoni pizzu og skinku pizzu. Þær borðuðu flestar vel og mikið af pizzunni. Í eftirrétt var boðið upp á súkkulaði rice crispies kökur sem slógu í gegn. Stelpurnar voru saddar og sælar. Eftir kvöldmat var haldið upp í sal á veislukvöldvöku. Þar voru skemmtilegu Ölverslögin sungin og foringar sáu um skemmtiatriði. Það var mikið hlegið og stelpurnar skemmtu sér konunglega að horfa á foringjana bregða sér í hin ýmsu hlutverk. Undir lokin voru rólegri lög sungin og farið með hugleiðingu sem fjallaði um týnda sauðinn.
Stelpurnar enduðu daginn inni í herberginu sínu með bænakonum sínum og fóru mjög sáttar að sofa. Það varð fljótt ró yfir húsinu og greinilega mikil þreyta í hópnum. Við forstöðukonur og foringjar erum ótrúlega sáttar með skemmtilegan dag.
Laugardagur 20. Júlí, 2024
Heimfarardagur er runnin upp, eins ótrúlegt og það er. Einhverveginn líður tíminn hraðar hér í Ölveri, við finnum allar fyrir því. Nokkrar stelpur hafa talað um að þær vilji bara ekkert heim og væru til í að vera nokkrar nætur í viðbót. Aðrar eru tilbúnar að fara heim eftir að hafa notið gæðastunda síðustu daga.
Dagskráin í dag er auðvitað með breyttu sniði en þær fóru í morgunmat og á fánahyllingu og svo beint inn í herbergi að pakka dótinu sínu. Síðan verður haldið upp á morgunstund. Eftir hana verður lokabrennókeppnin þar sem sigurlið brennómótsins keppir við foringjana. Veðrið er gott svo við stefnum á að borða pulsur úti í hádeginu. Við munum síðan kveðja stelpurnar með lokastund þar sem við syngjum Ölverslögin í síðasta skiptið.
Við erum ótrúlega ánægðar með flokkinn. Síðustu daga hefur húsið verið fullt af stórum og frábærum karakterum sem við höfum haft svo gaman af að kynnast. Þar sem þær voru færri en venjulega náðum við að kynnast enn betur og mynda falleg tengsl. Við þökkum fyrir okkur og vonumst til að sjá sem flestar aftur í Ölveri í framtíðinni.
Kveðja frá forstöðukonum,
Andrea Rut og Salóme