Þá rann veisludagur upp og eftir Biblíufræðslu, síðustu brennókeppnina og hádegismat var haldin hæfileikasýning. Forstöðukonan var búin að segja stelpunum söguna um talenturnar í Nýja Testamentinu og mikilvægi þess að fá rými til að vaxa, dafna og leyfa sínum einstöku hæfileikum og eiginleikum að blómstra. Það sást greinilega á sýningunni að stelpurnar bjuggu yfir hinum ýmsu hæfileikum og það var dansað, sungið, leikið og listaverk sýnd. Á sama tíma voru þær allar að æfa sig í að veita öðrum athygli og virðingu.

Þá var kominn tími til að byrja að snyrta sig og snurfusa fyrir kvöldið. Öll herbergin fóru í heita pottinn góða og boðið var upp á fléttugerð. Loksins var búið að skreyta matsalinn og hann opnaður þar sem boðið var upp á hinar einstöku Ölverpizzur! Þær slógu í gegn eins og fyrri daginn svo allar gátu sest saddar og sælar á kvöldvöku. Á kvöldvökunni fengu foringjarnir loksins sviðið og léku á alls oddi í hinum ýmsu leikritum. Klassísk sumarbúðaleikrit á borð við „Grænsápuna“ og „læknasyrpuna“ stóðu fyrir sínu.

Þegar komið var að því að fara að sofa spjölluðu bænakonurnar við sínar herbergisstelpur og svo buðu foringjar upp á notalegan kvöldsöng á ganginum.

Þegar allar vöknuðu daginn eftir var komið að brottför. Það gekk vel að ganga frá öllum farangri og foringjarnir skemmtu sér sérstaklega í foringjabrennóinu. Það er mikill metnaður lagður í það að sigra börnin í þeim leik sem tókst með naumindum 🙂 Að pylsuveislu lokinni lagði hópurinn af stað eftir dýrðardaga í Ölveri.

Við þökkum fyrir þessa dýrmætu daga saman og hlökkum til að taka vonandi á móti stelpunum ykkar næsta sumar.

Matthildur Bjarnadóttir, forstöðukona