Hæ, hó og jibbí jei!

Í dag héldum við hátíðlega upp á 17.júní! Stelpurnar voru vaktar af fjallkonunni og var búið að skreyta allt húsið með íslenska fánanum. Stelpurnar fengu sér morgunmat og fóru út í fánahyllingu.

Því næst tóku stelpurnar til í herbergjunum sínum og fóru á biblíulestur. Á hverjum morgni hér í Ölveri er biblíulestur, þar sem við syngjum saman og stelpurnar fá að heyra stutta hugleiðingu. Í morgun sagði ég þeim frá stofnanda Ölvers henni Kristrúnu og frá sögu Ölvers.

Eftir biblíulestur fóru stelpurnar í Brennó sem þær keppa í á hverjum degi. Þeim var skipt í fimm lið og munu öll liðin keppa sín á milli, og í lok vikunnar mun það lið sem vann flesta leiki standa uppi sem Brennómeistararar Ölvers og keppa á móti foringjaliðinu.

Í hádegismatinn fengu þær dýrindis grjónagraut og brauð með áleggi. Þær borðuðu vel og drukku.

Eftir hádegismat kepptu þær í svokölluðum Ölversleikum, þar sem þær tóku þátt í ýmsum þrautum eins og t.d. stígvélaspark og rúsínuspýtt. Herbergin kepptu saman og græjuðu sig allar í flotta hópbúninga og peppuðu hvor aðra áfram!

Í kaffitímanum var svo glæsileg súkkulaði-fánakaka með Rice Krispies fánastöng og svo fengu þær líka pizzusnúða.

Eftir kaffi var svo boðið upp á að fara í heita pottinn og sturtu. Langflestar fóru í pottinn og fóru allar í sturtu. Eftir það voru stelpurnar ýmist að spila, gera vinabönd, spjalla eða lesa.

Í kvöldmatinn voru hamborgarar og franskar. Stelpurnar voru mjög ánægðar með þennan mat og borðuðu vel.

Því næst fóru þær á kvöldvöku og í lok kvöldvöku fór ég að segja þeim frá af hverju við höldum upp á 17. júní. En það var ekki bara í þeim tilgangi að segja þeim frá sögunni heldur líka til þess að hefja ævintýraleik. Ég sagði stelpunum frá því að ég væri búin að heyra orðróm um að Danir og Danakóngur væru komnir hingað í Ölver til þess að reyna taka sjálfstæði Ölvers! Því næst stormuðu Danir inn í kvöldvökusalinn og stelpurnar hlupu út. Ég sagði þeim að þær þyrftu að finna Jón Sigurðsson til þess að hjálpa okkur úr þessum vandræðum! Þegar þær höfðu fundið Jón þá sagði hann þeim að fara finna Svein Björnsson! Þegar þær höfðu fundið hann sendi hann þær að finna Fjallkonuna. Þegar þær höfðu fundið hana gaf hún þeim lítinn íslenskan fána og þá fengu þær að fara frjálsar í sjálfstætt Ölver. Á meðan öllu þessu stóð voru Danirnir og Danakóngur að reyna ná þeim og senda þær í “fangelsi” þar sem þær þurftu að bíða eftir að einhver önnur stelpa myndi koma og “klukka” þær úr fangelsinu. Stelpunum þótti mjög gaman í þessum leik og margar sem náðu að finna alla!

Að leik loknum buðum við upp á grillaða sykurpúða, en í miðju kafi þá byrjaði að hellidemba og eldstæðið dó út. Þrátt fyrir það var stemmning í stelpunum og allar fengu sykurpúða.

Í lok dags voru stelpurnar mjög þreyttar og margar byrjuðu að hrjóta um leið og þær lögðust á koddann.

Ég minni svo á símatíma milli 18-19 og svo koma nýjar myndir inn á hverjum degi inn á Flickr.

Einnig vil ég benda ykkur á Facebook síðuna okkar “Ölver skemmtilegar sumarbúðir” og Instagram síðuna okkar “sumarbudirnarolver”. Þar setjum við líka inn fullt af flottum myndum og efni!

Bestu kveðjur úr Ölveri,

Kristrún Lilja- forstöðukona