Þriðji dagurinn hér í Ölveri byrjaði að vana á morgunmat, fánahyllingu, tiltekt, biblíulestri og brennó.
Í hádegismatinn var ljúffengt lasanga með hvítlauksbrauði og salati. Stelpurnar borðuðu vel og drukku.
Eftir hádegismat var borðtenniskeppni þar sem stelpurnar kepptu sín á milli. Einnig var boðið upp á að spila, gera vinabönd og dunduðu stelpurnar sér við ýmislegt.
Í kaffitímanum var boðið upp á klassískar Ölvers brauðbollur og “Subway” smákökur sem stelpurnar voru sjúkar í.
Eftir kaffi var svokölluð “Top Model” keppni, þar sem að herbergin unnu saman að því að klæða upp eina sem módel og koma fram á tískusýningu. Stelpurnar unnu vel saman og var útkoman mjög skemmtileg.
Eftir keppnina var boðið upp á að fara í heita pottinn og sturtu, ásamt því að tvö herbergi voru að undirbúa atriði og leik til að koma fram á kvöldvökunni.
Í kvöldmatinn var píta með skinku, eggjum, grænmeti og sósu. Þær borðuðu vel.
Á kvöldvöku voru svo herbergin tvö með stórskemmtileg atriði og leiki. Í lok kvöldvökunnar komu inn bandbrjálaðar tuskur og byrjuðu svokallaðan tuskuleik!
Tuskuleikurinn virkar þannig að stelpurnar þurfa að hlaupa um svæðið og finna þrautir eins og t.d. “bottle flip” og Cheerios blástur. Ef þeim tókst að klára þrautina fengu þær á sig strik. Það voru í heildina fjórar stöðvar sem stelpurnar þurftu að klára til að vinna leikinn. En á meðan þær voru að reyna klára þrautirnar voru bandbrjáluðu tuskurnar að hlaupa á eftir stelpunum og ef þær náðu þeim þá tóku tuskurnar af þeim eitt strik og þá þurftu stelpurnar að reyna aftur við þá þraut. Þeim gekk mjög vel í þrautunum og voru duglegar að hlaupa undan tuskunum.
Eftir tuskuleikinn var þeim svo boðið í kósýstund á Kaffihúsi Ölvers, þar sem þær fengu heitt kakó, vöfflur og smákökur. Þeim þótti þetta mjög gott og næs að fá heitar vöfflur og kakó eftir allt hlaupið úti.
Það gekk ágætlega að fara sofa en líka pínu galsi eftir leikinn og kaffihúsið, en komin var ró á húsið um miðnætti og flestar sofnaðar þá.
Bestu kveðjur úr Ölveri,
Kristrún Lilja- forstöðukona