Fjórði dagurinn hér í Ölveri byrjaði að vana á morgunmat, fánahyllingu, tiltekt, biblíulestri og brennó.

Í hádegismatinn var Ölver-skyrbar með heimagerðu granóla (hnetulaust að sjálfsögðu), bönunum, eplum, perum, kókos og súkkulaðispænum. Stelpurnar voru mjög hrifnar og borðuðu vel.

Eftir hádegismatinn var boðið upp á brjóstsykursgerð, dans workshop og skotbolta. Þær voru allar mjög peppaðar fyrir brjóstsykrinum og gerðu öll herbergin saman eina bragðtegund sem þær fá að gæða sér á seinna í vikunni. Svo lærðu þær geggjaðan dans hjá foringja sem kennir og æfir dans og voru mjög flottar í því. Svo voru líka margar sem fóru í skotboltann og tóku vel á því.

Í dag átti ein hjá okkur afmæli og sungum við afmælissönginn fyrir hana í kaffinu og fékk hún köku með kerti. Svo fengu þær allar í kaffinu karamellulengjur og dýrindis skinkuhorn sem féllu vel í kramið hjá okkar konum.

Eftir kaffið var hárgreiðslukeppni sem að nokkrar tóku þátt í með sturlað flottar greiðslur. Einnig var boðið upp á að fara í heita pottinn og sturtu. Margar fóru út að leika, spiluðu spil eða áttu kósý spjall inn á herbergjum. Svo voru aftur tvö herbergi sem fóru að undirbúa atriði fyrir kvöldvökuna.

Í kvöldmatinn var geggjaður kornflex kjúklingur með kartöflum. Það voru þær mjög ánægðar með og er þetta uppáhalds matur margra hér í Ölveri.

Eftir kvöldmat hófst kvöldvaka og þar komu fram herbergin tvö með atriði og leiki.

Í lok kvöldvökunnar hófst svo sturlað skemmtilegt náttfatapartý, þar sem að allar stelpurnar fóru í náttfötin sín og dönsuðu eins og enginn væri morgundagurinn. Að lokum fengu þær íspinna og hlustuðu á fyndna sögu á meðan þær gæddu sér á ísnum.

Í lok dags voru allar mjög þreyttar og sofnuðu langflestar fyrir miðnætti.

Stelpurnar ykkar eru alveg dásamlegar og heiður að fá að vera hér með þeim. Þær eru góðar við hvor aðra og ótrúlega duglegar að hrósa, ég labba hér um bara rjóð í kinnum af öllum hrósunum þeirra.

Minni á að við setjum inn myndir á hverjum degi hérna→ https://flic.kr/s/aHBqjCihcN

Bestu kveðjur úr Ölveri,

Kristrún Lilja- forstöðukona