Við hófum morguninn kl. 9 við ljúfa tóna. Þær voru hressar og tilbúnar í daginn framundan. Hefðbundinn morgun í Ölveri samanstendur af morgunmat, fánahyllingu, tiltekt í herbergjum og Biblíulestri. Við erum með hegðunarkeppni sem er í gangi allan daginn og er frágangur í herbergjum leikur þar stórt hlutverk auk kurteisi í framkomu hvor við aðra og hvernig gengur að fá ró á kvöldin. Eftir Bibilíulestur tekur við brennó. Stelpunum var skipt í lið sem heita nöfnunum: Hydroflask, Camelback, Bink, Chilly´s, Stanley og Yeti. Fyrir þá sem þekkja ekki til eru þetta tegundir af vatnsbrúsum.

Eftir smá frjálsan tíma var boðið upp á hádegismat(matseðill neðar).Við tilkynntum að eftir mat færum við niður að Hafnará að busla. Þá tók við smá tími þar sem þær voru að gera sig til, fara í stuttbuxur og sundföt og pakka nauðsynja vörum. Þegar búið var að bera sólarvörn og flugnafælu á alla var lagt af stað. Svæðið í kringum Hafnará er mjög fallegt og býður upp á marga möguleika. Sumar fóru útí en aðrar sátu á bakkanum og sóluðu sig við tónlist.

Þegar komið var í Ölver var kaffimaturinn tilbúinn. Boðið var upp á súkkulaðiskúffuköku og Ölversbollur. Í kaffinu útskýrðum við næsta dagskrárlið sem var Ölversleikar! Það er keppni milli herbergja þar sem keppt er í alls kyns misfurðulegum greinum. Þ.á.m. köngulóarhlaup, ljóðakeppni, stígvélaspark og breiðasta brosið. Því eru greinar sem ættu að höfða til sem flestra.

Hamraver sá um kvöldvökuna og mössuðu það að sjálfsögðu. Þar sem stór hópur stelpnanna hefur komið oft áður reynum við að villa aðeins fyrir þeim svo þær fatti ekki dagskránna alveg strax. Þess vegna kynntum við fyrir þeim leik sem var ótrúlega ruglingslegur og flókinn og sendum þær út á stétt. Þar voru foringjar á náttfötum að gíra sig upp í náttfatapartý! Þetta var í heildina góður dagur og stelpurnar fóru sáttar í háttinn.

Ölverskveðjur,
Kristrún Guðmunds. forstöðukona

Matseðill:
morgunmatur: hafragrautur, morgunkorn og súrmjólk
hádegismatur: hakk og spaghetti
kaffi: súkkulaðiskúffukaka og Ölversbollur
kvöldmatur: grænmetisbuff, kúskús og sósa
kvöldkaffi: frostpinni í partýinu og ávextir