sunnudagur – 16. júlí
Það er þá víst komið að því að kveðja uppáhalds Ölversstelpurnar okkar. Þær fengu að sofa aðeins lengur í morgun til þess að hafa orku til þess að pakka. Okkur til halds og trausts í vakningu voru fjórar galvaskar stelpur úr Lindaveri. Þær voru með accapella-atriði við enda gangsins og sungu þær af mikilli alúð. Því gátu hinar stelpurnar ekki annað en vaknað.
Eftir morgunmat pökkuðu stelpurnar niður í tösku. Við reyndum að passa að allir væru með allt sitt en ef eitthvað vantar fóru allir óskilamunir á Holtaveg 28 og er hægt að sækja þar á opnunartíma KFUM. Brennókeppnin hefur verið háð alla morgna og sigurvegari hennar, Camelback, hlotnaðist því sá heiður að keppa á móti foringjunum. Foringjarnir eru auðvitað í landsliði Ölvers í brennibolta og atvinnufólk í alla staði. Að þeim leik loknum kepptu allir á móti foringjunum.
Eftir verðskuldaðan hádegismat var komið að þessu erfiða. Að kveðja. Verðlaun vikunnar voru veitt og við nutum þess að vera saman í síðasta skipti.
Við, starfsfólk flokksins, þökkum stelpunum kærlega fyrir vikuna og ykkur fyrir að treysta okkur fyrir þeim. Við minnum á kaffisölu Ölvers sem verður haldin 20. ágúst að öllu óbreyttu. Við starfsfólkið verðum þar. En annars vonumst við til þess að hitta þær sem flestar aftur. og það sem fyrst
Ölverskveðjur,
Strafsfólk Unglingaflokks 2023