Dagur 3 runninn upp! Foringi vakti stelpurnar með frísklegri tónlist í morgunsárið og það var klassísk dagskrá fram að hádegismat. Mmmmmorgunmatur, fánahylling og tiltekt í herbergjum. Á Biblíulestri, morgunstundinni okkar, fundum við saman ró og kyrrð, hver og ein að hlusta á sitt innra líf og finna fyrir sér í stuttri íhugun. Svo las forstöðukona söguna ‘Þakkarkarfan’, sem fjallar um mikilvægi þess að ekki bara biðja til Guðs og lífsins varðandi það sem okkur langar og vantar – heldur að líka til að færa þakkir fyrir það sem við höfum þá þegar! Við sungum skemmtilega morgunlagið ‘Þakkir’ í takt við þemað. Svo ræddi forstöðukona um mikilvægi þess að tjá sig skýrt um það sem maður vill og þarfnast, eins og t.d. að leita til foringja þegar það vantar kláðaróandi á flugnabitin. Og svo mikilvægi þess að láta vita þegar maður vill ekki eitthvað eða finnst óþægilegt, t.d. þegar einhver er að fíflast í manni og segja þá „Stopp, mér finnst þetta óþægilegt“ eða „Nei, hættu.“ Sumar stúlkurnar könnuðust við upplifunina að finnast erfitt að biðja aðra um að hætta eða segja Nei, þ.a. við hvöttum til nærætni og mikilvægi þess að hlusta vel hver á aðra. Við sungum svo hreyfilag sem gefur öllum tækifæri á að teygja sig og beygja. Svo var falleg englastytta látin ganga á milli allra í salnum, og hverri og einni bauðst að segja nafnið sitt hátt og snjallt, og svo deila sínum þökkum upphátt eða í hljóði. Það var virkilega fallegt að heyra og greinilegt að margt er þakkavert; svo sem að fá að vera hjér í Ölveri, að eiga vini, fá góðan mat, geta gengið, eiga fjölskyldu, þakkir fyrir vatnið, og svo mætti lengi telja. Næst var Brennó keppni dagsins.
Í hádegismat var grænmetisbuff af tveimur sortum og kúskús, og rann það ljúflega niður. Eftir hádegismatinn var frjáls tími og eins og áður margar sem völdu að fara út að leika í góða veðrinu. Brennó, kríta, aparólan, tennis-stöngin o.fl. Svo voru nokkrar sem hópuðust saman uppá sal, spiluðu á hljómborð og sungu hástöfum Mama Mia lög, sem ómuðu út á stétt.
Fyrsti dagskrárliður var leirsmiðja, þar sem hver stúlka bjó til sína sköpun úr leir sem harðnar. Stelpurnar sökktu sér í verkefnið og útkoman er fjöldinn allur af furðuverum og smá-skúlptúrum sem við bíðum spenntar eftir að mála gripina að tveimur dögum liðnum. Við stukkum beint yfir í næstu smiðju sem var andlitsmálning. Hér fékk litagleðin heldur betur að njóta sín og skínandi andlit var á að líta úr öllum áttu. Þegar allar voru búnar að ljúka við sína grímu söfnuðumst við saman niðri í laut, í sólskini og blíðu, og fórum í dansleiki. Það var svo gaman að koma allar saman í fögnuði, fíflast og leika saman – allar sem ein. Við nýttum tækifærið og borðuðum kaffið úti í góða veðrinu, en nú var boðið upp á skinkuhorn, súkkulaðibananaköku og djús með. Næsta dagsskrá var kynnt: loksins HEITI POTTURINN! Sett var upp tímaplan þar sem hvert herbergi fékk úthlutaðan tíma í pottinum, og aðrar gátu valið um mismunandi smiðjur. Í salnum var karíókí söngsmiðja og í matsal var teikni smiðja, þar sem þær gátu valið um vatnsliti, túss og tréliti. Þær sem vildu spenntar vera úti að leika í frjálsum leik fengu að gera það þ.a. allir nutu sín vel. Heitapottur í sólinni, litadýrð í teikningum og ómandi karíókí yfir sveitina – lífið í Ölveri er sannarlega ljúft!
Hreinar og nýbaðaðar settust stelpurnar til borðs og fengu GEGGJAÐ góðan kvöldverð – kornflakes kjúkling og franskar. Eftir matinn var frjáls tími, leikur og fjör, áður en við komum aftur allar saman á sal. Kvöldvakan einkenndist af hressum lögum og stelpurnar taka kröftugar og kröftugar undir með hverjum deginum sem er virkilega gaman að sjá og heyra. Eitt herbergi bauð upp á fyndið leikrit og hressan leik, og foringi fór með hugleiðingu um bænina, og hvernig hver og ein getur fundið sína leið í trúnni. Í miðju síðasta kvöldlaginu ruddust tveir foringjar inn, klæddir eins og stelpur úr flokknum, og léku sprenghlægilegan leikþátt þar sem þær þóttust vera í fýlu og tölvu upp allar topp-kvartanirnar hér í Ölver – eins og til dæmis svarið við spurningunni: „Hvað gerum við næst?“ eða „Hvað verður í matinn?“ sem er alltaf „Það kemur í ljós 🙂 „. Stelpurnar skellihlógu því þær höfðu flestar sagt þessar setningar hvor við aðra. Að endingu sögðu foringjarnir sem voru í gervinu: „Við vitum hvað væri skemmtilegt að gera…. BÍÓKVÖLD!!“ Hópurinn ærðist úr kæti og þær drifu sig í náttföt og náðu í sængur og sumar dýnurnar úr kojunni sinni og salnum var breytt í flatsæng og náttfatapartý.
Við horfðum á myndina um meistarakokkinn og rottuna Ratatouille. Steplurnar fengu popp og síðar eplabita með heimsendingu í bíóið. Þetta var virkilega hugljúf stund. Eftir myndina komu þær sér snöggt og snjallt í bólið, og bænaherbergið var í styttra lagi því bænakonurnar söfnuðust saman á ganginum fyrir framan herbergin með gítar og sungu eins og englakór slakandi raddaða söngva, svo í kvöld var hópurinn í heild svæfður saman.
Það er mikið líf og fjör í þessum fjölbreytta hóp af kröftugum stelpum. Það er fallegt að sjá hversu mikil mildi og vinátta ríkir í hópnum, og þær koma fallega fram hver við aðra og okkur starfsfólkið.
Undirrituð hefur verið á þönum frá því klukkan hringdi í morgun – og skrifar þessi orð í lok dags ennþá með andlitsmálninguna í andlitinu því enn hefur ekki gefist stund til að þvo hana af… sem er bráðfyndið þar sem stelpurnar voru með ásettu ráði sendar í sturtu og heitan pott fyrir kvöldmat til að þvo alla málningu af! Það má með sanni segja að starfið í sumarbúðunum sé lifandi og litríkt. Ég finn djúpt þakklæti fyrir traustið að fá að vera stúlkunum ykkar til halds og traust þessa daga og veit að restin af starfsliðinu finnur hið sama.
Við sendum kærleikskveðjur úr Ölveri,
Áróra