Svalandi rigning og andvari tóku á móti okkur í morgun. Það var því ákveðið að dagskráin myndi fara fram að mestu leiti innandyra í dag. Sköpunargleðin fékk byr undir báða vængi og verkefni dagsins reyndu einnig á samvinnu og samskiptafærni stúlknanna.
Eftir morgunmat og morgunstund héldu stúlkurnar út á fótboltavöll þar sem fyrsti huti brennókeppninnar var spilaður í blautu grasinu. Keppnin var æsispennandi og verður spennandi að sjá hvaða lið ber sigur úr býtum í vikulok.
Í hádegismat voru ljúffengar tortillur og stúlkurnar tóku vel til matar síns.
Eftir hádegi var haldin Top Model keppni þar sem reyndi á sköpunarkraft, útsjónarsemi og samvinnu. Herbergin héldu svo tískuskýningu þar sem afraksturinn var sýndur og vakti það mikla kátínu.
Í kaffinu var boðið upp á nýbakaðar brauðbollur og súkkulaðiköku.
Eftir kaffi föndruðum við úr trölladegi og margar stelpur nýttu einnig tækifærið þar sem stytti upp og skelltu sér út í ævintýraskóg að leika sér.
Í kvöldmat var grjónagrautur og var hann borðaður upp til agna af bestu lyst.
Eftir feykiskemmtilega kvöldvöku var svo náttfatapartý þar sem gleðin réð heldur betur ríkjum. Mikið stuð, mikið dansað og ís og hugleiðing áður en bænakonur komu herbergjunum í ró.
Það er dásamlegt að fá að kynnast þessum flottu stelpum og sjá þær blómstra í öllum verkefnum dagsins.