Sólin vakti okkur með geislum sínum í morgun en rigningarúðinn var ekki langt undan. Við létum það þó ekki stoppa okkur í að njóta dagsins og hafa gaman.

Eftir morgunmat og morgunstund hélt brennókeppnin áfram og leikar eru heldur betur að æsast.

Í hádegismat var grænmetisbuff, kúskús og grænmeti.

Eftir hádegi fórum við í gönguferð upp í hlíðina þar sem við fórum í leiki. Það var gott að hreyfa líkamann aðeins í ferska loftinu og fallegu náttúrunni okkar.

Eftir kaffi var stöðvavinna þar sem stúlkurnar gerðu kókoskúlur, máluðu trölladegið sitt síðan í gær, fóru í Just Dance og í pottinn. Það var mikið fjör og þeim þótti ljúft að komast loksins í pottinn að láta líða úr sér.

Í kvöldmat var hakk og spaghetti.

Að lokinni kvöldvöku héldum við kaffihúsakvöld þar sem starfsfólk hafði breytt matsalnum í notalegt kaffihús og boðið var upp á nýgerðar kókoskúlur og rjúkandi heitar vöfflur með sultu og rjóma.

Þetta var skemmtilegur og líflegur dagur með hugmyndaríkum stelpum.