Eftir ævintýri gærkvöldsins var ákveðið að stelpurnar fengju að sofa aðeins lengur. Við vöktum þær því klukkutíma seinna en vanalega og alveg ljóst að það var þörf á þar sem það var enn dauðaþögn í húsinu og engin vöknuð þegar kom að vakningu.

Morguninn gekk svo sinn vanagang með fánahyllingu, tiltekt, biblíulestri og brennó. Á biblíulestri var svo settur af stað leynivinaleikur. Stelpurnar drógu hver og ein eitt nafn á stelpu í flokknum sem verður þeirra leynivinkona næstu tvo daga.

Í hádegismat var boðið upp á fiskibollur, hrísgrjón, sósu og salat. Stelpurnar voru mjög spenntar fyrir leynivinaleiknum og í framhaldi af hádegismat gafst tími til að útbúa póstkassa á hurðarnar auk þess að þær gátu hafist handa við að föndra og útbúa eitthvað til að gleðja leynivin sinn.

Í kaffitímanum var boðið upp á dýrindis kanilsnúða og súkkulaðibitakökur. Þær voru ekkert smá ánægðar með veitingarnar og heyrðist í einni upp úr þurru „mmmm, þetta er bara gleði í bita!“.

Eftir kaffitíma var aftur boðið upp á pottaferðir og sturtur auk þess að við drógum fram fallegar perlur til að útbúa perluarmbönd, hvort heldur sem er fyrir þær sjálfar eða leynivinkonur sínar. Stelpurnar eru ótrúlega duglegar að dunda sér, spjalla og njóta þess að vera með hvorri annarri, þvert á herbergi, sem er mjög gaman að sjá.

Í kvöldmat var boðið upp á kjúkling, kartöflur og sósu og borðuðu þær vel. Eftir kvöldmat var slegið til kvöldvöku og að þessu sinni voru þar stelpurnar í Hlíðarveri sem sáu um skemmtiatriði. Þær léku á alls oddi og sýndu frumsamið leikrit sem fékk salinn til að skellihlæja. Brilliant skemmtun þar á ferð!

Í lok kvöldvöku komu foringjar inn með smá leikþátt sem endaði með því að sett var af stað bíómynd og héldu stelpurnar að nú væri að fara af stað kósý bíókvöld… Eeeeen eins og svo oft áður í þessum flokki vorum við bara að gabba þær. Stuttu eftir að myndin fór í gang kom mamman úr Algjör Sveppi myndunum inn í salinn. Villi var týndur og Sveppi og Gói höfðu farið að leita að honum. Nú náði mamman heldur ekki í þá og skildi ekki neitt í neinu. Það eina sem hún hafði heyrt þá tala um var að þeir væru að leita að manni með lykil. Nú myndi reyna á stelpurnar að hjálpa til við leitina. Villi greyjið týndur og Sveppi og Gói horfnir við leitina líka. Þessi leikþáttur var inngangur að svokölluðum ævintýraleik. Ævintýraleikur í Ölveri er í grunninn góður gamaldags eltingaleikur með einhvers konar ævintýraþema. Þema leiksins var tekið úr myndinni „Algjör Sveppi og leitin að Villa“ í þetta skiptið og hlupu stelpurnar um allan skóg í leit að persónum úr myndinni, manninum með lykilinn, Sveppa, Góa og að lokum Villa á meðan þær forðuðust að vera klukkaðar af ninjum sem eltu þær um svæðið. Eftir að leiknum var lokið komu stelpurnar aftur inn í Ölver þar sem þeirra beið kaffihúsakvöld í matsalnum þar sem þær fengu vöfflur og heitt kakó til að ná sér niður eftir öll hlaupin. Veðrið var alls ekki með okkur í liði þetta kvöldið og komu þær allar rennandi blautar inn. Þær létu þó bleytuna alls ekki stoppa sig og tóku fullan þátt þrátt fyrir rok og rigningu. Kvöldið hjá mér fór því í það að reyna að dreifa úr og þurrka föt og skó og sýnist mér það verða verkefni næstu daga.

Á kaffihúsakvöldinu fengum við í heimsókn stjórn KSS en þau höfðu einnig brugðið sér í líki ninja í leiknum. KSS stendur fyrir Kristileg skólasamtök en það er félag fyrir ungt fólk á aldrinum 14/15 ára til 20 ára. Félagið hittist öll laugardagskvöld kl. 20.30 yfir vetrartímann á Holtavegi 28 (höfuðstöðvum KFUM og KFUK). Þar er um að ræða ótrúlega skemmtileg kvöld sem í mínum huga eru að mörgu leiti framlenging á barna-, unglinga- og sumarbúðastarfi fyrir aðeins eldri krakka. Ég hvet ykkur til að skoða þetta starf með ykkar stelpum þegar þær hafa aldur til en þarna gæti verið frábær vettvangur fyrir þær að hitta aftur gamlar Ölvers vinkonur og halda þar með sambandi.

Eftir kaffihúsakvöldið var komið að háttatíma. Eins og alltaf fylgdu bænakonurnar þeim inn á herbergi og áttu með þeim rólega og notalega stund fyrir svefninn.

Það voru sáttar og sælar stúlkur með mallann fullan af vöfflum og kakó sem lögðust á koddann þetta kvöldið.

Meira á morgun.

Bestu kveðjur,

Unnur Rún, forstöðukona.