Síðasta heila daginn í Ölveri köllum við veisludag. Veðrið hélt áfram að versna og gul viðvörun beið okkar á veisludegi. Stelpurnar fengu aftur að sofa aðeins út og í morgunmat beið þeirra dýrindis brunch þar sem boðið var upp á hrærð egg, beikon, brauð og álegg og amerískar pönnukökur. Í framhaldi tók við hefðbundin morundagskrá. Á biblíulestri ræddum við um það hvernig orð Guðs getur verið vegvísir fyrir okkur í lífinu og í lokin var komið að því að uppljóstra því hver væri leynivinkona hverrar. Það gerðum við með því að þær létu kerti ganga og afhentu hver á fætur annarri til sinnar leynivinkonu og það var dásamlegt að fylgjast með hvernig andlitin ljómuðu á meðan á þessu stóð. Eftir biblíulestur var svo komið að því að spila lokaumferðin í brennókeppni flokksins þar sem vanalega er skorið úr um hvaða lið sigrar keppnina og vinnur sér inn keppnisrétt í leik gegn foringjunum næsta dag. Niðurstöður mótsins voru þó þær að tvö lið stóðu jöfn og því var ákveðið að spilaður yrði úrslitaleikur á brottfarardegi.
Í hádegismat var boðið upp á pastasalat og eftir mat fóru allar stelpurnar í sturtu og þær sem vildu höfðu val um að fara í heita pottinn. Í kaffitíma var svo boðið upp á pizzasnúða og karamellulengjur. Eftir kaffi var sett upp snyrtiaðstaða í matsalnum þar sem stelpurnar gátu dundað sér við að hafa sig til fyrir kvöldið allar saman og hlustað á tónlist og spjallað á meðan. Samhliða því var frjáls tími þar sem þær gátu útbúið vinaarmbönd, spilað og spjallað.
Um klukkan sjö var hringt inn í veislukvöldverð og stelpurnar þá allar orðnar svo fínar, komnar í sparigallann, búnar að setja upp skartið, með fínt í hárinu og margar búnar að punta sig í framan og geisluðu þær allar af spenningi og ánægju. Á veislukvöldi er borðaröðun breytt í matsalnum og stelpunum raðað af handahófi í sæti svo þær sitja ekki með þeim vinkonum sem þær komu með heldur blandast með öðrum. Á þessum tímapunkti var hópurinn búinn að blandast mjög vel og var ekki annað að sjá en að stelpunum þætti þetta skemmtileg tilbreyting. Í veislumatinn var boðið upp á pizzu eins og stelpurnar gátu í sig látið og borðuðu þær mjög vel. Eftir kvöldmat gafst svo smá frjáls tími á meðan foringjarnir borðuðu og undirbjuggu skemmtiatriði kvöldsins. Því næst var blásið til veislukvöldvöku þar sem stelpurnar sungu hástöfum í bland við stórskemmtileg leikrit frá foringjunum. Eftir kvöldvöku var boðið upp á kvöldkaffi og var það með veisluívafi þetta kvöldið. Boðið var upp á vanilluís með alls kyns nammi og sósum að eigin vali. Yfir kvöldkaffinu virtist sú staðreynd hellast yfir sumar að komið væri að lokum á þessari dásamlegu dvöl í Ölveri og tár fóru að brjótast fram. Tárin virtust nokkuð smitandi og ljóst að stelpurnar eru búnar að kynnast vel og njóta sín og munu koma til með að sakna Ölvers og hvorrar annarar. Ég vona innilega að einhverjar þeirra muni halda sambandi og hver veit nema við sjáumst flestar hér að ári liðnu. Eftir kvöldkaffi og mörg knús þeirra á milli var komið að því að koma öllum í ró og eiga í síðasta sinn (í bili allavega) notalega stund með bænakonunni. Við gáfum þeim ágætis tíma til að koma sér í rúmið auk þess að njóta inni á bænó og því var farið heldur seint að sofa. Það verða því líklega mjög þreyttar en vonandi líka mjög sælar stelpur sem þið fáið heim eftir vikuna.
Á brottfarardag var svo komið að því að undirbúa heimför. Pökkun fór fram eftir morgunmat og gekk hún nokkuð skrautlega. Mikið af dóti stelpnanna hafði rennblotnað í gegnum vikuna og hékk því til þerris á víð og dreif um húsið og því gekk brösuglega að finna sumt. Þegar pökkun var langt komin var komið að foringjabrennó. Fyrst var leikinn úrslitaleikur milli toppliðanna tveggja en að lokum var það liðið Envy (liðin voru nefnd eftir Inside out karakterum) sem bar sigur úr býtum og lék gegn foringjunum í framhaldi. Envy liðið gaf ekkert eftir og átti stórleik gegn foringjunum og minnstu munaði að foringjarnir töpuðu. Foringjunum tókst þó að sigra að lokum enda margfaldir Ölversmeistarar og ofurefli við að etja! Að lokum var svo spilaður brennóleikur þar sem allar stelpurnar kepptu saman á móti foringjum. Enn og aftur stóð það mjög tæpt en foringjunum tókst að lokum rétt svo að vinna.
Því næst var hádegismatur og boðið var upp á grillaðar pulsur. Því næst var að klára pökkun og koma öllum töskum á einn stað. Að lokum var svo lokastund með verðlaunaafhendingu og Ölvers-Eurovisionlagi ársins áður en haldið var í rútuna með hraði. Brottför seinkaði um nokkrar mínútur auk þess að seinkun varð á leiðinni vegna slyss sem orðið hafði á þjóðveginum og því seinkaði heimkomu aðeins. Ég vona að þetta hafi ekki sett stórt strik í reikninginn á dagsskipulaginu hjá ykkur og að þið hafið fengið glaðar stelpur í fangið þegar rútan mætti loks á svæðið!
Það er búið að vera ótrúlega gaman að fylgjast með hversu mörg ný vináttubönd hafa myndast síðustu daga og það verður spennandi að sjá hvort einhver þeirra lifi áfram, út fyrir veggi Ölvers. Takk fyrir að treysta okkur fyrir börnunum ykkar! Ég vona að okkur hafi tekist að veita þeim ævintýralega skemmtilega viku og að það sem þær hafi lært verði þeim gott veganesti út í lífið. Ég vona að bitin verði fljót að gróa og að eftir sitji skemmtilegar minningar sem fylgi þeim alla tíð! Ég bið að heilsa þeim öllum og hver veit nema að við sjáumst aftur síðar í Ölverinu góða 🙂
P.S. Við reyndum okkar besta að þurrka af þeim en það var þó þónokkuð um blaut og rök föt sem þurftu að fara með þeim heim í poka. Ég hvet ykkur því til að fara vel í gegnum töskurnar þeirra sem fyrst svo það liggi ekki eitthvað blautt þar í einhvern tíma. Eins er við því að búast að eitthvað hafi orðið eftir en eitthvað af óskilamunum fundust við þrif á staðnum eftir að rútan var farin af stað. Hægt er að nálgast óskilamuni í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK við Holtaveg. Eftir 1. október áskilja sumarbúðirnar sér rétt til að ráðstafa ósóttum óskilamunum. Ég hvet ykkur því til að kanna hvort eitthvað hafi gleymst við fyrsta tækifæri.
Bestu kveðjur,
Unnur Rún, forstöðukona.