Í gær vaknaði hópurinn í glampandi sól og hita. Eftir morgunmat var Biblíufræðsla þar sem stelpurnar fengu að heyra dæmisöguna um týnda soninn og við ræddum hversu dýrmætar þær væru hver ein og einasta. Að sjálfsögðu þurfti að nýta góða veðrið svo hópurinn fór niður að læk þar sem hægt var að vaða í köldu vatninu. Þar völdu þær sér líka fallega steina sem voru málaðir í öllum regnbogans litum þegar heim var komið.

Á kvöldvöku voru fastir liðir eins og venjulega. Tvö herbergi sáu um skemmtiatriði og á milli voru teknir allir helstu Ölvers slagararnir. Þetta kvöldið var hópurinn ansi þreyttur svo stelpurnar fóru snemma upp í en fengu í staðinn langa stund með sínum bænakonum sem fóru í leiki og sögðu sögur inni á herbergi. Allar sváfu vel um nóttina.

Í dag var þemað eldhúsbras. Eftir morgunstund með forstöðukonunni þar sem sett var upp örleikrit um miskunnsama samverjann og brennó fengu stelpurnar að skreyta sína eigin skúffukökusneið. Það var hrært í nokkur kíló af marglitu smjörkremi og svo kepptust þær við að gera frumlegustu skreytinguna. Afraksturinn rann ljúflega niður í kaffitímanum en þar á eftir fengu þær að spreyta sig í brjóstsykursgerð. Í dag fór einnig af stað leynivinaleikur sem verður í gangi í tvo daga og þær eiga allar að dekra við sinn leynivin í frjálsa tímanum án þess að upp komist hver sé að verki. Það er mikill spenningur yfir þessu og sköpunarkrafturinn nýtist vel í alls kyns föndri, vinabandagerð og perli.

Hópurinn er virkilega skemmtilegur og góður andi á staðnum.

Matthildur Bjarnadóttir, forstöðukona í 10. flokki