Gærdagurinn hjá okkur var einstaklega skemmtilegur. Í upphafi dags heyrðu stelpurnar sköpunarsöguna og hvernig öll sköpun Guðs er dýrmæt og einstök, þar á meðal þær sjálfar. Við ræddum hvernig við ættum að koma fram við allt sem Guð hefur skapað og stelpurnar voru með fullt af góðum hugmyndum um hvernig þær gætu komið fram af kærleika og virðingu við sig sjálfar og aðra. Í lok stundarinnar fengu þær allar autt blað á bakið og gengu svo á milli hvor annarrar og fylltu blöðin af fallegum hvatningarorðum og hrósi.

Í hádeginu var boðið upp á pítur og eftir að hafa fyllt á tankinn fóru fram hinir sívinsælu Ölverleikar þar sem þær kepptu í skrítnum þrautum á borð við stígvélaspark og jötunfötu. Eftir kaffitímann þar sem bananabrauð og sjónvarpskaka runnu ljúflega niður voru listastöðvar og þær gátu valið á milli þess að taka þátt í leikhóp, danshóp eða sönghóp. Afraksturinn var svo sýndur á kvöldvöku 🙂

Dagurinn endaði á kósý bíókvöldi þar sem hópurinn lá saman í flatsæng í salnum, horfi á Disney myndina Ósk og borðaði brjóstsykurinn sem þær sjálfar höfðu búið til daginn áður ásamt poppi.

Í dag er veisludagur runninn upp og það er mikill spenningur fyrir kvöldinu. Hópurinn er orðinn þéttur og góður og vináttan hefur vaxið á milli þessara flottu Ölversstúlkna.

Á sunnudaginn, brottfarardag, leggjum við af stað héðan úr Ölveri klukkan 14:30 og gerum ráð fyrir að vera mættar á Holtaveg 15:30.

Ég minni á að myndir úr flokknum má finna hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720319373897/

Matthildur, forstöðukona