Rétt rúmlega á slaginu níu í morgun mættu 19 hressir krakkar til okkar í Ölver. Við starfsfólkið könnuðumst strax við allnokkur börn og vorum spennt að fá að hitta þau aftur og hlökkum til að kynnast þeim sem hafa ekki komið áður. Þau fengu sér sæti í matsalnum og gæddu sér á morgunmat áður en lengra var haldið.
Þó svo að dagskráin á leikjanámskeiðinu sé aðeins frábrugðin hefðbundnum dvalarflokkum eru auðvitað nokkrir fastir liðir. Þar á meðal fánahylling og morgunstund sem voru einmitt næstu dagskrárliðir. Á morgunstund sungum við vel valin lög, fórum í nafnaleik, horfðum á foringjaleikrit og á hugleiðingu úr Biblíunni sem krakkarnir léku.
Þar sem ekki allir krakkarnir hafa komið áður var tilvalið að fara í gönguferð um svæðið. Við skoðuðum körfuróluna og aparóluna, stangatennis, leikkofa og fótboltavöllinn. Við kynntum þau líka fyrir tröllskessunni Dísu sem liggur á fjallinu ofan við Ölver og passar okkur. Göngunni lauk á fótboltavellinum með nokkrum leikjum.
Í hádegismat var steiktur fiskur í raspi, kartöflubátar, kokteilsósa og grænmeti. Það var einstaklega mikilvægt að næra sig fyrir næsta dagskrárlið því fyrst að hin umtalaða sól lét sjá sig skelltum við okkur í gönguferð. Ferðinni var heitið út fyrir svæðið í skjólgóða laut stuttu frá. Á leiðinni mættum við talandi jólatré sem bað okkur um að dansa í kringum sig áður en við héldum áfram. Það gerðum við og sungum allt Göngum við í kringum einiberjarunn. Í lautinni var mikið um krækiber sem krakkarnir tíndu og smökkuðu.
Í kaffinu voru rice krispies, pizzasnúðar og ávextir. Krakkarnir mættu þá saddir og sælir á lokastundina áður en þau hoppuðu í rútuna.

Hlökkum til að sjá þau á morgun.

Ölverskveðjur,
Kristrún forstöðukona