DAGUR 6- Veisludagur

Sjötti dagurinn hér í Ölveri er síðasti heili dagurinn okkar og jafnframt veisludagur! Hann byrjaði með hefðbundnu sniði með morgunmat, fánahyllingu, tiltekt, biblíulestri og brennó.

Í hádegismatinn var boðið upp á pastasalat með skinku eggjum og grænmeti.

Eftir hádegismat var stór varúlfaleikur, stelpurnar hafa margar verið að spila varúlf á kvöldinn með bænakonunum sínum og hafa mjög gaman að því, svo því var tilvalið að henda í einn stóran þar sem þær voru allar saman. Á meðan voru sumir líka ýmist að spila, syngja karaoke eða spjalla.

Í dag áttu svo tveir afmæli hjá okkur, ein stelpa í flokknum og einn foringi. Við sungum að sjálfsögðu afmælissönginn fyrir þær báðar í kaffinu og í kaffinu var dýrindis gulrótarkaka og klassískar Ölversbollur.

Eftir kaffi fóru þær svo allar í sturtu og langflestar í heita pottinn, og fóru svo að gera sig til fyrir veislukvöldið. Við breyttum matsalnum í snyrtistöð, þar sem þær sátu allar saman og förðuðu sig og gerðu hárið sitt fínt. Að lokum fóru þær svo allar í sparifötin sín.

Í veislumatinn var pizza að hætti Ölvers og voru foringjarnir að þjóna þeim til borðs og borðuðu þær allar rosalega vel.

Eftir kvöldmat var svo veislukvöldvaka og þá leika foringjarnir nokkur leikrit, stelpurnar hlógu mikið og mikil stemmning var á síðustu kvöldvökunni okkar.

Það var því mikill æsingur og stemmning í lok dags, en stelpurnar voru duglegar að fara í háttinn og var komin ró á húsið um miðnætti.

DAGUR 7- Heimfaradagur

Síðasti dagurinn hér í Ölveri byrjaði að vana á morgunmat og fánahyllingu. Svo var komið að því stóra verkefni að pakka, það tók ekki langan tíma og næst fóru þær í stuttan biblíulestur.

Eftir biblíulesturinn þá fóru þær í brennó en ekki hefðbundið brennó, heldur foringjabrennó! Þá yfirleitt keppir það lið sem vann flesta leiki í vikunni. En ykkar stelpur eru alveg magnaðar í brennó og því stóðu uppi þrjú lið sem brennómeistarar Ölvers. Því kepptu þessi þrjú lið á móti foringjaliðinu, og þaulreyndu foringjar unnu þær. Svo fengu allar í flokknum að keppa leik á móti foringjunum og foringjarnir unnu þær líka.

Eftir brennó fengu þær svo pylsur í hádegismat.

Núna þegar ég sit hér að skrifa þessa frétt erum við að fara hefja lokastund, þar sem við veitum verðlaun, syngjum Ölverslagið og kveðjumst allar.

Rútan fer héðan kl. 14 og verðum mættar á Holtaveg 28 um kl. 15. Ég bendi ykkur á að ef barnið ykkar gleymdi einhverju, þá fara allir óskilamunir á Holtaveg 28.

Annars þakka ég bara kærlega fyrir mig, það var dásamlegt að fá að kynnast stelpunum ykkar og eyða með þeim þessari geggjuðu viku hér í Ölveri!

Bestu kveðjur úr Ölveri,

Kristrún Lilja- forstöðukona