24 fallegar telpur komu í Ölver í dag. Þær eru frá 7 – 9 ára, einhverjar eru að koma í fyrsta sinn en þó eru margar í hópnum sem hafa komið áður í sumarbúðirnar.
Stelpurnar borðuðu vel hádegismatinn en það var grjónagrautur og brauð og síðan var farið í göngutúr um svæðið til að sýna þeim staðinn. Eftir kaffitíma var farið í brennó í íþróttahúsinu. Í kvöldmat var ávaxtajógúrt og heitt brauð sem allar borðuðu með góðri lyst. Kvöldvakan hófst klukkan 20 og tóku telpurnar þátt í öllu sem boðið var upp á með mikilli gleði. Það var farið í leiki, sungið og að lokum var sögð saga um dýrmætu perluna. Sú saga kennir okkur að við hver og ein erum eins og dýrmæt perla í augum Guðs og Guð elskar okkur allar. Þær fengu síðan ávexti áður en þær fóru að sofa en ró var komin í skálann fyrir miðnætti. Skemmtilegur hópur af hressum og flottum stelpum.
Nýjar myndir verða settar inn strax á morgun.