Það voru kátar stelpur og til í hvað sem er, sem komu hingað í Ölver um hádegisbil í dag. Vel gekk að skipta þeim í herbergin og þegar þær höfðu komið sér vel fyrir, borðuðu þær vel af grjónagraut. Eftir hádegi gengum við niður að á þar sem við vorum í nokkra tíma og fengum kaffimeðlætið okkar þangað. Þar sóluðum við okkur og mikið var buslað í svalandi vatninu.
Við heimkomu fóru stúlkurnar í Hamraveri að æfa atriði fyrir kvöldvökuna og aðrar stúlkur voru að leik út um alla landareignina. Ágætlega var borðað af plokkfisknum og síðan var kvöldvaka með miklu fjöri. Eftir ávaxtabitann fyrir svefninn fundu stúlkurnar miða inni á herbergjum með vísbendingum um hver þeirra bænakona væri og hlupu þær allar út í skóg til að leita sinnar bænakonu. Mikið gaman og að lokum fundust þær allar.
Farið var inn á bænaherbergi með bænakonum og eftir þá stund var ljóst að boðið væri upp á að sofa úti í laut, sem margar hafa ákveðið að nýta sér. Hún er steinsnar frá húsinu, þannig að lítið mál er að koma sér aftur inn í hús ef þær vilja í nótt. Spáin er góð fyrir nóttina og óhemjufagurt veður hér í kvöld.
Símtækið okkar hefur ekki virkað í kvöld og eigum við von á nýju tæki fyrir næsta símatíma. Ef ekki svarar í Ölvers-símanúmerinu (433-8860), má hringja í mig á milli kl. 18 og 19 í síma 661-7763.
Við bjóðum góða nótt og nýjan dag að morgni.
Í Guðs friði, Ása Björk Ólafsdóttir, forstöðukona.