Enn einn sólardagurinn hér í Ölveri er að kveldi kominn. Ráðskonan tilkynnti fyrir morgunverðinn að í dag væri bleikur dagur. Hafragrauturinn var bleikur og aldrei hefur jafn mikið verið borðað af honum! Hamborgararnir voru ekki bleikir, en með bleikri sósu þó. Eftir mat fórum við í sundfötin og gengum niður að ánni. Hitinn var þægilega mikill og sólin ekkert að spara geisla sína.
Flestar stúlkurnar fóru á kaf í ánni, sem er fremur vatnslítil og alls ekki straumhörð, fremur eins og stór lækur. Þaðan eru margar myndir hér á vefnum. Í kaffinu fengum við bleikar vatnsmelónur, sizzasnúða og möffins með bleiku kremi auk þess sem við fengum bleika sólberjasaft að drekka. Sumar voru við ána í tæpa þrjá tíma, en aðrar völdu að vera alveg í fjóra tíma. Það voru sólbrúnar stúlkur sem sneru aftur í hús eftir vel heppnaða ferð og virka notkun sóláburðar.
Heiti potturinn og undirbúningur kvöldvöku var á sínum stað fram að kvöldmat. Þá fengu stúlkurnar bleikt skyr og alls kyns smurbrauð og höfðu gaman af. Það þarf varla að taka fram að flestar klæddust einhverju bleiku eða höfðu bleikt í hárinu á þessum fagra Drottins degi. Kvöldvakan var fjörug og eru það þreyttar stúlkur sem liggja í rúmum sínum eftir ávaxtabitann.
Með ósk um góða nótt og nýjan dag að morgni,
Ása Björk, forstöðukona í Ölveri.