Nú er þessi næstsíðasti dagur að kveldi kominn. Eftir morgunmat og fánahyllingu endurröðuðum við í salnum og héldum guðsþjónustu. Ein stúlkan las uppfletti-ritningartextann sem að þessu sinni var úr Jóhannesarguðspjalli 3:16. Önnur stúlka las guðspjallið og saman sungum við mikið auk þess sem þær tóku þátt í hugleiðingu dagsins um fagnaðarerindið og það hvaða áhrif það hefur á okkur að fá að kynnast Jesú Kristi og fylgja honum í lífinu.

Eftir síðustu umferð brennókeppninnar var boðið upp á dýrindis sunnudagsmat; bayonneskinku með öllu tilheyrandi. Stúlkurnar gerðu matnum góð skil. Eftir hádegi fór hluti hópsins aftur í gönguferð niður að á og þar dvöldum við í tvo tíma í steikjandi sól og hita. Mikið var buslað og sumar hreinlega svöluðu sér í ánni. Hinn hlutinn var í leikjum í landi Ölvers. Þema dagsins var bleikt. Kjötið í hádeginu var bleikt, vöfflurnar voru bleikar og jógúrt kvöldsins einnig. Eftir kaffi var síðan haldin hæfileikakeppni niðri í laut. Þar stigu stúlkurnar fram hver af annarri og sýndu hæfileika sína, allt frá dansi og söng og yfir í teiknihæfileika og hljóðgjörning. Það eru greinilega mikilr hæfileikar í gangi. Þá var kvöldvakan undirbúin og farið í heita pottinn.

Á kvöldvökunni fundum við hvað stúlkurnar voru þreyttar eftir þennan skýlausa dag, þar sem sólin hefur átt aðgang að okkur óhindrað. Það voru því þreyttar en spenntar stúlkur sem fóru inn á herbergi með bænakonum sínum. Guð gefi þeim og okkur öllum góða nótt á þessari fallegu sumarnótt hér í Ölveri.

Með bestu kveðju, Ása Björk forstöðukona.