Enn einn dýrðardagurinn er að kvöldi kominn hér undir Blákolli við Hafnarfjall. Það voru glaðar, en örlítið þreyttar stúlkur sem vöknuðu hér klukkan níu í morgun. Þær gerðu morgunverðinum góð skil og sungu vel með við fánahyllinguna. Því næst tóku þær til inni á herbergjum, því það er hegðunarkeppni í gangi, þar sem ástand herbergja að morgni og dugnaður að fara að sofa að kvöldi skiptir verulegu máli. Í Biblíulestrinum ræddum við það að Jesús er alltaf með okkur, bæði þegar vel gengur og einnig þegar við göngum í gegnum erfiðleika. Þær flettu upp ritningarstaðnum Lúkas 8:22-25. Ég hvet ykkur eindregið til að lesa þann texta, kæru foreldrar. Stúlkurnar eru nú allar komar á það stig að geta flett upp í Biblíunni og er það mjög gott! Einnig var mikið sungið. Brennókeppnin hélt áfram og þar er sko fjör.
Í hádeginu var snitsel sem rann ljúflega niður með meðlætinu. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar tilkynnt var að hárgreiðslukeppnin yrði klukkan tvö. Það voru margar fallegar greiðslur sem litu dagsins ljós í þeirri keppni og erfitt að segja til um hverjar vinna hana, en það kemur allt í ljós á veisludaginn, sem er lokadagurinn okkar saman hér í Ölveri. Eftir hárgreiðslukeppnina dreifðust stúlkurnar um alla landareignina og birtust síðan úr öllum áttum þegar blásið var til drekkutímans. Eftir kaffi hélt íþróttakeppnin áfram og var keppt í jötunfötu og húla. Margar efnilegar og verulega klárar stúlkur eru í þessum hópi, sem er óvenju íþróttalega sinnaður. Heiti potturinn var vel nýttur í dag og æft var fyrir kvöldvökuna.
Eftir kvöldmat var mikið sungið á kvöldvökunni og atriðum kvöldsins var vel tekið. Hugleiðingin var um vináttuna, sagan af Mörtu og Maríu var sögð. Stúlkurnar voru uppgefnar eftir langan dag, en fengu sér þó ávaxtabita fyrir svefninn. Eftir að bænakonur hafa lesið fyrir og beðið með stúlkunum hafa þær sest á ganginn framan við herbergin og sungið þær í svefn, undanfarin kvöld. Þess má geta að Þóra foringi er dugleg að draga fram gítarinn og syngja með stúlkunum þar sem þær eru hverju sinni og vekur það mikla kátínu og þátttöku í söngnum.
Með kærum kveðjum úr Ölveri og þakklæti fyrir þessar vel gerðu stúlkur og einnig allt þetta jákvæða, lífsglaða og ósérhlífna starfsfólk.
Ása Björk forstöðukona.