Það er búið að vera nóg að gera í dag hér í Ölveri og nágrenni. Við vöktum stúlkurnar aðeins seinna í dag, til þess að þær hefðu meira úthald inn í kvöldið. Í Biblíulestri dagsins skoðuðum við fólkið í Biblíunni. Stúlkurnar nefndu ótrúlega margar persónur, þær voru fljótar að átta sig á því um hvaða fólk var verið að leika stutt leikrit og þær tóku líka eftir því hversu mun fleiri karlarnir voru en konurnar. Við flettum upp textanum Lúkas 1:26nn.
Eftir brennókeppni og hádegismat var gengið út að ,,Stóra steini“. Það er góð ganga. Mikið var leikið úti í dag, enda hefur veðrið verið alveg dásamlegt! Eftir hollt meðlæti í kaffitímanum var keppt í víðavangshlaupi og lögðu margar mikið á sig í því. Útileikir, æfingar fyrir atriði kvöldvökunnar og heiti potturinn var ekki alveg nóg fyrir þær. Sumar vildu komast aðeins inn úr allri sólinni og perla eða teikna. Það skapaðist skemmtileg stemning í matsalnum og mikið var straujað.
Stúlkurnar borðuðu vel í kvöldmatnum og fóru beint að leika að honum loknum. Í lok kvöldvökunnar birtust síðan skrítnir karakterar sem heimtuðu náttfatapartý. Stelpurnar drifu sig í náttföt og fjörið hófst. Mikið var dansað og sungið auk þess sem boðið var upp á popp á meðan ég las söguna: Þú ert frábær. Bænakonur báðu með stúlkunum inni á herbergjum og síðan sat Þóra Björg með gítarinn frammi á gangi og stúlkurnar voru allar sungnar í svefn. Þvílís sæla!
Með fögrum sólarlagskveðjum úr Ölveri,
Ása Björk forstöðukona.