Það voru sprækar stúlkur sem þustu fram úr rúmunum í morgun, til að upplifa annan ævintýradag í Ölverinu sínu. Eftir hafragraut og/eða morgunkorn var fánahylling, tiltekt á herbergjum og síðan gerðum við nokkuð óvanalegt; Biblíulestur dagsins héldum við í sól og hita niðri í laut. Ég sagði þeim frá Biblíunni í öllum sínum fjölbreytileika og fundum við margt í samfélaginu sem tengist eða á rætur að rekja til hinnar helgu bókar. Þannig tengdum við nöfn margra þeirra við persónur Biblíunnar og spurðu þær margs. Einnig var sungið. Stúlkurnar lærðu að fletta upp í Biblíunni og var ritningarstaður dagsins Sálmarnir 119:105 og einnig sálmur 23.

Brennókeppnin hófst í dag og skiptast stúlkurnar í lið sem heita: Jarðarber, krækiber, bláber, brómber, hindber og vínber. Dýrindis plokkfiskur rann ljúflega niður í hádeginu, gengið var upp í fjall og eftir kaffi hófst íþróttakeppnin. Keppt var í þriggjastaðahlaupi og broskeppni, þar sem lengd brosanna var mæld.

Þá var frjáls tími, farið í heita pottinn og Skógarver æfði atriði fyrir kvöldvökuna. Veðrið hefur verið gott, ekki alveg stöðug sól seinasta partinn, en mikið leikið úti. Kvöldvakan gekk vel, ávextirninr voru vel þegnir og það voru þreyttar stúlkur sem fóru inn á herbergi með bænakonum sínum.

Með sólarkveðjum úr Ölveri,
Ása Björk forstöðukona.