Annar dagur flokksins rann upp og þegar við vöktum stelpurnar klukkan níu voru allar stelpurnar syfjaðar. Ein telpa kom á tal við mig og sagði að það hefði verið svo gaman í gær að hún væri svo hrædd um að allt fjörið væri búið. Þær voru þó fljótar að koma sér framúr og eftir morgunmat var fánahylling og síðan Biblíulestur. Þar fengu þær að læra um upphaf félaganna KFUM og KFUK, heyrðu söguna um sr. Friðrik Friðriksson og síðan var sagt frá Kristrúnu sem setti á fót sumarbúðirnar Ölver. Eftir lesturinn var brennókeppni og það má með sanni segja að stelpurnar séu duglegar í brennó. Margar eru að æfa handbolta eða aðrar íþróttir og ekki laust við að kvíðahrollur hríslist um okkur sem þurfum að keppa við sigurliðið á veisludaginn.
Eftir hádegismat en þá fengu þær að borða hakk- kjötbollur með hrísgrjónum með salsa sósu sem þær borðuðu mjög vel, þá var farið í SURVIVOR. Það er leikur þar sem herbergin vinna saman, þær eru ættbálkur, þurfa að búa til skýli úti í náttúrunni, nefna ættbálkinn sinn og safna eldivið. Þær þurftu einnig að leysa hinar ýmsu þrautir þar sem þær m.a. fóru í boðhlaup, þurftu þá að hlaupa ofan í heita pottinn að leita að steinum til að mynda orðið kærleikur. Við höfðum sett freyðibað í pottinn þannig að þær sáu ekki steinana sem þær tóku upp. Þær þurftu að safna sínum lit af steinum og mynda síðan orð úr þeim steinum sem þær voru búnar að safna. Stelpurnar tóku allar þátt í leiknum og höfðu gaman af.
Í kvöldmatnum grilluðum við pylsur handa SURVIVER- meisturunum okkar og þær voru margar algjörlega botnlausar svo mikið borðuðu þær. Okkur finnst mjög mikilvægt að börnin borði vel, þá eru þær duglegri að leika sér og eru hressar og ánægðar.
Kövldvakan var úti þar sem við vildum halda áfram leiknum okkar aðeins fram eftir kvöldi. Stelpurnar voru búnar að undirbúa hin ýmsu atriði þar sem nokkur orð þurftu að koma fram m.a. nafn ættbálksins og fleira. Þetta tókst allt saman ákaflega vel og gaman hvað þær taka þátt í öllu með jákvæðu hugarfari. Þær syngja líka rosalega vel, margar eru auðvitað að koma hingað í fimmta-sjötta sinn eða jafnvel hafa dvalið hér oftar. Þær kunna því alla söngvana og taka vel undir.
Stelpurnar voru þreyttar þegar þær fóru að sofa og því var komin ró í skálann nokkuð fljótt. Við viljum hvetja ykkur til að kíkja á myndirnar sem komnar eru á netið. Hún fékk þau svör að þetta væru rétta að byrja.
Við þökkum fyrir daginn sem var alveg mjög skemmtilegur !

Ragnhildur Ásgeirsdóttir, forstöðukona