Nokkrar stúlknanna voru komnar á stjá um kl:7 í morgun og flestar voru þær farnar að skottast um húsið þegar vakið var kl:8, greinilega útsofnar eftir nóttina. Stúlkurnar borðuð morgunmat, hylltu fánann, sóttu biblíulestur og tóku þátt í hárgreiðslukeppni áður en hádegisverður var á borð borinn. Í matinn var dýrindis lasagna sem stúlkurnar kjömsuðu á með bestu lyst.
Eftir hádegi undirbjuggu stúlkurnar skemmtiatriði sem svo voru flutt á hæfileikasýningu við mikinn fögnuð viðstaddra. Að kaffitíma loknum var svo boðið upp á hoppukastala og baðferð í heita pottinn fram að kvöldmat. Boðið var upp á skyr og smurt brauð sem rann niður af bestu lyst, enda stúlkurnar sammála um að ekkert skyr bragðist jafnvel og Ölversskyr.
Eftir kvöldmat hófst svo gamanið. Þá var kvöldvaka með miklu gríni og glensi og að henni lokinni var heljarmikið náttfatapartý. Stúlkurnar dönsuðu sem ættu þær lífið að leysa og brostu allan hringinn (ef ekki tvo).
Langur, strangur og viðburðaríkur dagur er nú að kveldi kominn og stúlkurnar komnar hver í sitt ból, enda klukkan orðin 22:00 (vonum að þær svífi allar inn í draumalandið sem fyrst og fái þá hvíld sem þær þurfa á að halda).
Lella forstöðukona