Þessi dagur hefur verið góður, þrátt fyrir að hitastigið hafi lækkað nokkuð frá því sem við erum orðnar vanar hér í Ölveri. Það er svo gaman í ævintýraflokki, að stúlkurnar vita aldrei á hverju þær eiga von. Það stöðvar þær samt ekki í því að spyrja. Eftir fánahyllingu völdu stúlkurnar sér hóp til að æfa þætti fyrir guðsþjónustu sem haldin var eftir hádegi. Hóparnir voru: Leiklistarhópur, bænahópur, sönghópur og danshópur. Hver hópur hafði klukkutíma til að æfa. Eftir æfingarnar var haldið áfram með brennómótið.

Í hádeginu var gómsætt lasagne og borðuðu stúlkurnar vel af því. Síðan var þeim sagt að klæða sig vel og hafa sunddót í tösku næst þegar blásið yrði í lúðurinn. Þegar að því kom, beið okkar langferðabíll sem flutti okkur í óvissuferð. Fyrst í Hallgrímskirkju á Saurbæ í Hvalfirði, þar sem við héldum guðsþjónustu. Stúlkurnar stóðu sig mjög vel og má sjá myndir af því hér á síðunni. Eftir guðsþjónustuna var ekið upp að sundlauginni að Hlöðum, þar sem við borðuðum nestið okkar og fórum síðan í sund. Það var kærkomið, enda ekki á hverjum degi sem þær fara með fjörutíu vinkonum í sund!

Sælar héldum við síðan heim á leið. Þá var komið að stúlkunum í Fjallaveri að æfa atriðin fyrir kvöldvökuna. Eftir pylsupartý var síðan afraksturinn sýndur og var það vel. Eftir ávaxtabitann að lokinni kvöldvöku var enn spenna í stúlkunum og voru þær nokkra stund að koma sér í háttinn. Bænakonur komu inn til þeirra og létu þær síðan koma með sér upp í sal, þar sem búið var að setja mynd í tækið og við tók notaleg stund. Það verður seint sem stúlkurnar sofna í kvöld.

Þetta er mjög skemmtilegur stúlknahópur. Stúlkurnar eru í senn fjörugar, kurteisar og fullar eftirvæntingar um hvað muni gerast næst!!!

Með kærri kveðju úr náttúrufegurðinni hér í Ölveri,
Ása Björk, forstöðukona.