Annar dagur listaflokks hefur gengið að óskum og óhætt að segja að nóg hafi verið á dagskránni. Eftir ljúfan nætursvefn voru stúlkurnar vaktar kl. 8:30. Boðið var uppá kornflögur og heilhveitihringi með heilum höfrum (cheerios ;-). 5 stúlkur kusu þó heldur að fá hafragraut og var þeim hrósað sérstaklega fyrir gott val!
Á morgunstund fræddi Kathryn Aikins stúlkurnar um starf sitt meðal þeirra fátækastu í Atlantaborg í Bandaríkjunum þar sem hún er prestur og kom það stúlkunum á óvart hversu bágan kost margir búa við og hversu mikilvægu starfi kirkjan sinnir í meðal þeirra sem minnst mega sín. Kathryn sýndi myndir og sagði meðal annars frá því þegar hún svaf úti á meðal heimilslausra yfir nótt. Stúlkurnar hlustuðu andaktugar á. Útgangspunkturinn var vers úr Jakobsbréfi sem Kathrynu er kært og fjallar um að okkur beri aldrei að að fara í manngreinarálit.
Fyrir hádegi var önnur stöð í hópavinnunni frá í gær og fóru hóparnir ýmist í bókbandsgerð, stomp/taktvinnu eða í dans og hreyfingu. Í hádeginu var boðið uppá salat, spagettí og hakk með gulrótum. Það rann ljúft niður. Þá var tilkynnt um að þema dagsins væri Rautt og fengu allar stúlkurnar rauða Ölversboli að gjöf. Starfsstúlkurnar höfðu brugðið sér í rauð föt og skreytt sig sem mest þær máttu. Rauði liturinn tengist vitanlega kærleikanum sem er yfirþema flokksins. Til að undirstrika það fengu stúlkurnar fersk rauð jarðaber um leið og þær klæddu sig í bolina.
Að hádegismat liðnum var hópavinnu hringnum lokað og hafa því allar stúlkurnar gert bókband, dansað og slegið takt og gert hristur.
Í kaffinu biðu kökur með rauðu kremi, rauðar vatnsmelónur og kanilstykki.
Eftir kaffið var farið í fantasíusköpun og máttu stúlkurnar búa sér til búninga, hárgreiðslu, föndra, teikna myndir að hvað annað skapandi sem þeim datt í hug. Myndirnar frá þessum lið munu tala sínu máli og ljóst að það býr mikil sköpunarkraftur í þessum 34 stúlkum sem verið er að virkja á fullum krafti hér í Ölveri 😉
Kvöldmaturinn var sveipaður ævintýrablæ en stúlkurnar grilluðu sér pylsur á teini yfir kolum sem komið hafði verið fyrir með haganlegum og öruggum hætti í einu af þeim fallegu rjóðrum sem finna má í Ölveri, þetta fannst þeim mikil upplifun og veðrið var milt eins og það hefur verið í allan dag. Eftir að hafa borðað pylsurnar með hinu íslenska staðalmeðlæti var mikil hamingja þegar fréttist að í eftirrétt mætti grilla sykurpúða.
Á kvöldvökunni voru tvö herbergi með atriði og sýndu þær leikrit, þá söng Katrín Helga frumsamið lag við mikinn fögnuð, þá var tvöfaldi konsertinn eftir Bach spilaður svo það vantar ekki hæfileikanna!
Birta flutti hugleiðingu byggða á veru sinni í Perú þar sem hún starfaði sem sjálfboðaliði við Hjálparstarf. Hún sýndi myndir og fékk margar skemmtilegar spurningar frá áhugasömum stúlkunum, sem fengu góðan innblástur um hversu gott við höfum það í raun hér á Íslandi og hvað við þrátt fyrir allt getum verið þakklát og hjálpað þeim sem minna mega sín.
Í kvöldkaffinu lauk rauða þemanu með vatnsmelónum og smá smakki af rauðu Jello-búðingshlaupi sem stelpurnar höfuð ekki allar smakkað áður. Það mun seint teljast til hollustu fæðutegundar sem til er en það var fagurrautt!
Ró er nú að færast yfir húsið og bænakonurnar ganga inná herbergin þegar stúlkurnar hafa burstað tennur og gert sig klárar fyrir draumalandið.
Það er ekki síður spennandi dagur framundan á morgun…
Myndir frá deginum koma vonandi inn að hluta til síðar kvöld og restin í fyrramálið allt eftir því hversu vel gengur að hlaða þeim inn!