Tíminn æðir áfram. Unglingaflokkur í Vatnaskógi senn á enda runninn þótt ótrúlegt megi virðast. Margt hefur verið brallað þessa daga. Auk fastra dagskrárliða eins og knattspyrnumóts, frjálsra íþrótta, hermannaleiks og bátsferða þá hefur meðal annars verið boðið upp á keppni í því sem við nefnum Þraukarinn 2009. Þar hafa verið lagðar þrautabrautir sem, meðal annars, voru fólgnar í að krakkarnir settust upp í veltibíl og hlupu því næst upp brekku á sápulögðum plastrenningi eftir það spreyttu þau sig á að róa á þurru landi.
Stúlkur úr unglingaflokknum í Ölveri komu í heimsókn í fyrrakvöld og voru með á kvöldvöku en að henni lokinni var slegið upp diskóteki í stutta stund. Í gærkvöld var farið í sundferð að Hlöðum en að henni lokinni var haldin róleg söngstund við arineldinn í Gamla skála þar sem grillaðir voru sykurpúðar. Nokkuð hefur rignt í Vatnaskógi síðustu dagana og var af þeim sökum hætt við fyrirhugaða útilegu, sumum til sárra vonbrigða. Veðrið hefur þó verið milt þó eitthvað hafi rignt en það sem mestu varðar er að hafa sól í hjarta og sól í sinni.