Hér í Ölveri er sólin farin og tekið að rigna, en hérna erum við hrifnar af báðu. Rigningin þýðir jú meira vatn í lindina okkar. Gærdagurinn var reyndar þurr framan af og stelpurnar fóru út í morgunleikfimi eftir morgunmatinn, morgunkorn og hafragraut. Eftir hann héldum við áfram í hópastarfi við að búa til lög, pappír og í tjáningu.
Svo hógst keppni í borðspilagerð, sem stendur enn yfir en þar má sjá ýmsar útgáfur af spurningaspilum, slönguspilum og fleira. Í hádegismat var boðið upp á kjötbollur með brúnni sósu, kartöflum og salati.
Á samverustund hlustuðum við á hugleiðingu um það hvernig allar hafi tíma fyrir Jesú. Við tökum hann bara með í allt; hvort sem það er tiltekt eða tómstundir. Í frjálsa tímanum var boðið upp á brennó, og kremgerð, sem snyrtifræðingurinn í hópnum sá um. Kremin voru úr haframjöli og agúrkum og smökkuðust vel auk þess að hreinsa húðina.
Vegna örlítils framleiðslugalla við fíflasírópsgerð (það brann illilega við) var ráðist í lúpínusírópsgerð og stelpurnar færðu í hús heilu stæðurnar af bláum blómunum. Við stöndum yfir þessum skammti þegar hann mallar 🙂
Stúlkurnar völdu sér þar næst einn af þremur listgreinahópum sem þær vilja starfa í út flokkinn. Myndlistahópur ætlar að ráðast í að gera mósaíkmynd sem vonandi er hægt að nota sem altaristöflu hér í Ölveri. Tjáningarhópur er að vinna í söng og dansatriði. Tónlistarhópurinn ætlar að vinna með hljóðfæri og texta, enda margar stúlkur sem komu með hljóðfærin með sér.
Í kvöldmat fengum við pítur úr heimabökuðu brauði sem smökkuðust vel.
Kvöldvakan var skemmtileg, en þegar bænakonur voru nýkomnar inn á herbergi að enda daginn var þeim rænt af undarlegri manneskju í grænum búningi og þurftu stúlkurnar að elta þær út í íþróttahús til að leysa þær úr gíslingu með söng og dansi. Náttfatapartýið var hafið. Við dönsuðum af miklum mætti í um hálftíma og svo var boðið upp á popp í matsalnum. Eftir það fórum við upp á sal og höfðum söng og bænastund fyrir svefnin. Stúlkurnar kveiktu á bænakertum og við róuðum okkur niður.
Frábær dagur í gær og vonandi aftur í dag.
II. Kor. 9. 6-7. Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera, og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera. Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.