Fyrsti dagur að kveldi kominn í Ölveri.
Um hádegi fylltist Ölverið okkar af skemmtilegum og fjörugum stúlkum. Margar höfðu komið áður, en aðrar ekki. Þær voru fullar eftirvæntingar að koma í ævintýraflokk og jákvæðnin skein úr hverju andliti.
Eftir að þeim hafði verið raðað í herbergin, náðu þær í farangur sinn út á hlað og komu sér fyrir í herbergjunum. Þær tóku hraustlega til matar síns og lituðust aðeins um eftir það. Veðrið var betra en spáð hafði verið og það var ekki fyrr en við vorum allar að koma úr göngu um landareignina, að fyrstu regndroparnir tóku að falla. Þá tók við nafnaleikur upp í sal og síðan var drekkutími. Þá tók brennókeppnin við og frjáls tími að henni lokinni. Það var svangur hópur sem fyllti matsalinn á kvöldmatartíma og steikti fiskurinn ásamt grjónum og grænmeti bókstaflega hvarf ofan í þær. Nú var farið að rigna hressilega og engar höfðu löngun í útileik, því nýttu þær tækifærið að kynnast betur inni.
Á kvöldvökunni var mikið sungið og voru það Vesturbæingarnir í Fjallaveri sem skemmtu okkur með leik og leikþáttum sem þær höfðu æft, mikið var hlegið. Eftir hugleiðingu um Góða hirðinn var ljóst að stúlkurnar voru orðnar mjög þreyttar. Þær fengu ávexti og höfðu sig til fyrir svefninn.
Dagurinn hefur verið skemmtilegur og engir árekstrar komið upp. Vindinn er að lægja og gróðurinn er sæll með vökvunina. Ég hlakka til að eiga heila viku með þessum gullmolum og þess ber að geta að flokkurinn er mjög vel mannaður og skipulagning starfsfólks alveg ævintýralega frjó.
Með kærleikskveðju héðan úr Ölveri,
Ása Björk Ólafsdóttir, forstöðukona.