Fallegur dagur er nú runninn sitt skeið og ró að færast yfir sumarbúðirnar. Þetta var fyrsti næstumþví venjulegi sumarbúðadagurinn og er það líka ágætt. Stúlkurnar hafa verið duglegar að leika sér, en Biblíulestur og brennóboltakeppnin gengu mjög vel fyrir hádegi. Eftir gómsætar fiskibollur með kartöflum og grænmeti, hoppuðu stelpurnar mikið í hoppukastalanum og eftir það tók mögnuð hárgreiðslu- og förðunarkeppnin við. Á meðfylgjandi myndum má sjá margar þeirra frumlegu hárgreiðslna sem framkvæmdar voru.
Heiti potturinn var vinsæll að vanda og það voru hreinar stúlkur sem mættu til kvöldverðar.
Stúlkurnar í Lindarveri sáu um skemmtiatriðin á kvöldvökunni og mikið var sungið auk þess sem foringi var með hugleiðingu um bænina. Eftir kvöldávexti fóru stúlkurnar að koma sér í ró og bænakonur þeirra mættu inn á herbergi með bóklestur, bænir og spjall um atburði dagsins.
Með kærri kveðju úr stillunni hér undir Blákolli,
Ása Björk forstöðukona.