Í gær voru allar klukkur teknar af stelpunum, úr, myndavélar og allt sem sýnt gat tímann. Í morgun var fremur drungalegt úti fyrir, lágskýjað og blautt. Því létum við sem það væri komið kvöld og drifum allar í kakósúpu í kvöldmatinn. Þær voru ekki alveg vissar um hvort þær ætluðu að trúa okkur, en létu gott heita. Því næst var farið í að æfa atriði fyrir kvöldvökuna og síðan var vakan sjálf. Þá var komið að bænaherbergjum, en fljótlega var flautað í drekkutímann, um hádegi. Fengu þær bæði heimabakaðar skonsur og gómsæt kartöfluvínarbrauð. Þá höfðu þær tíma til að undirbúa sig fyrir hæfileikakeppnina. Heimsfrægir kynnar mættu til að meta hæfileikana og var allt upphugsanlegt í gangi. Því næst var hádegismatur á borð borinn um kaffileytið; pítur með hakki og/eða grænmeti eftir smekk hverrar og einnar. Stúlkurnar tóku þátt í staðbundnu kvennahlaupi eins og venjan segir til um þann 19. júní. Nú hafði veðrið batnað enn frekar og því settum við upp vatnsrennibraut hér í brekkunni og voru ófáar salíbunurnar farnar! Heiti potturinn var vinsæll og á kvöldmatartímanum fengum við morgunmat; bleikan hafragraut, cheerios og kornflakes. Þá var kominn tími á Biblíulestur, brennó og síðan fóru allar að hátta eftir kvöldávextina.
Þegar ró var að komast á, var flautað til náttfatapartýs, dansað, poppkornsát, saga sögð og að lokum var sungið. Yndislegar stúlkur gengu til náða uppgefnar eftir enn einn viðburðaríkan dag. Tímaruglinginn þoldu þær vel og höfðu bara gaman af.

Með kærri kveðju úr Ölverinu okkar,
Ása Björk forstöðukona.