Spenntar og glaðar stelpur mættu á aðalstöðvar KFUM og KFUK í dag til að koma upp í Ölver. Mikil eftirvænting var í hópnum sem náði hámarki þegar rútuferðinni lauk loksins og komið var að því að fá herbergi og herbergisfélaga. Það gekk vel og allar sáttar með sitt. Þá voru margar orðnar svangar og fengu súpu og brauð áður en dagskráin gat hafist. Byrjað var á því að fara í göngutúr um svæðið í blíðskaparveðri og svo í ýmsa leiki til að að hrista hópinn saman. Það gekk vel og virðist vera góð stemmning í hópnum og mikið fjör!
Eftir kaffitíma var hugað að íþróttaiðkun, öllum kennt brennó og íþróttakeppni vikunnar hafin auk þess sem stelpurnar fengu frjálsan tíma til að skoða sig um á nýjum stað.
Á kvöldvökunni hafði Lindarver undirbúið skemmtidagskrá, leiki og leikrit og hinar fylgdust spenntar með og hlustuðu svo með athygli á hugleiðingu kvöldsins. Þær fóru svo flestar þreyttar en glaðar að sofa á nýjum stað, spenntar fyrir ævintýrum morgundagsins.

Með tilhlökkun fyrir framhaldinu,

Björg Jónsdóttir, forstöðukona.

Myndir frá fyrsta degi má sjá hér:

http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=100086